100 íslensk verk á pólsku

Miðstöð íslenskra bókmennta.
Miðstöð íslenskra bókmennta.

Ísland verður heiðursgestur á bókamessunni Gdańskie Targi Książki sem fram fer í Gdansk í Póllandi helgina 29.-31. mars 2019. Þar verða íslenskar bókmenntir og höfundar í brennidepli, sem og þýðingar úr íslensku á pólsku.

Aðstandendur bókamessunnar hafa boðið til Gdansk nokkrum íslenskum höfundum sem eiga nú þegar bækur í pólskri þýðingu eða eru væntanlegar á næstunni. Það eru þau Hallgrímur Helgason sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í ár fyrir skáldsöguna Sextíu kíló af sólskini og hafa fyrri bækur hans, Konan við 1000° og 101 Reykjavík, vakið mikla athygli í Póllandi, Steinunn Sigurðardóttir, rithöfundur og ljóðskáld, en von er á bók hennar Heiða - fjalldalabóndinn í pólskri þýðingu Jacek Godek, Einar Kárason, en nýjasta bók hans, Stormfuglar, kemur út í Póllandi í haust, Elísabet Jökulsdóttir sem hlaut nýlega viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins en ljóðabókin Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett er nýkomin út á pólsku í þýðingu Jacek og Sigríður Hagalín Björnsdóttir, en fyrsta bók hennar Eyland kom út í Póllandi í fyrra, og von er á bókinni Hið heilaga orð í pólskri þýðingu Jacek. Þau taka þátt í dagskránni með margvíslegum kynningum á bókum sínum, segir í fréttatilkynningu frá Miðstöð íslenskra bókmennta.

Fyrsta þýðingin úr íslensku á pólsku var Edda sem kom út árið 1807 í Póllandi og síðan hafa komið út um 100 íslenskar bækur í pólskum þýðingum. Næstu verk komu út öld síðar; bækur Jóns Sveinssonar, Nonna, tvö verk Gunnars Gunnarssonar og nokkur verka Halldórs Laxness fylgdu í kjölfarið og verk eftir Mugg (Guðmund Thorsteinsson) og samtímahöfunda eins og Einar Kárason, Hallgrím Helgason, Yrsu Sigurðardóttur, Sjón, Arnald Indriðason, Lindu Vilhjálmsdóttur, Guðmund Andra Thorsson, Sigríði Hagalín Björnsdóttur, Steinar Braga, Elísabetu Jökulsdóttur, Jón Kalman og ýmsa fleiri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert