„Birtingarmynd óábyrgrar hægri stefnu“

Þingflokkur Samfylkingarinnar.
Þingflokkur Samfylkingarinnar. Ljósmynd/Aðsend

„Ríkisstjórnin hefur komið þjóðarbúinu í spennitreyju sem mun bitna á ungu fólki, fólki með lágar og millitekjur, öryrkjum, eldri borgurum og á þeim sem þurfa helst á þjónustu ríkisins að halda,“ segir í tilkynningu frá þingflokki Samfylkingarinnar.

Telur þingflokkurinn að forsendur fjármálaáætlunarinnar hafi verið brostnar áður en umræður á Alþingi um hana hófust. „Forsendur áætlunarinnar eru óraunsæjar og augljóst er að bregðast verður við með niðurskurði eða tekjuöflun vegna þeirrar fjármálastefnu sem ríkisstjórnin hefur sjálf sett sér.“

Hlýtur áætlunin gagnrýni fyrir að gera ráð fyrir 2% aðhaldskröfu á tímum kólnunar í hagkerfinu sem bætist ofan á niðurskurð ef kjarasamningar ríkisstarfsmanna leiða til meira en 0,5% launahækkana umfram verðlag.

Þá segir að fjármálaráðherra hafi „sagt að ef hagvöxtur verði minni en forsendur fjármálaáætlunar gera ráð fyrir, sjái hann enga aðra möguleika en að skera niður á útgjaldahliðinni“. Telur þingflokkur Samfylkingarinnar viðbrögð ríkisstjórnarinnar við niðursveiflu í hagkerfinu vera „birtingarmynd óábyrgrar hægri stefnu og mun bitna á þeim sem síst skyldi“.

Flokkurinn leggur til að minnka skaða af niðursveiflu með því að breyta áætluninni svo „hægt [sé] að liðka fyrir kjarasamningum með skattkerfisbreytingum, fjárfestingum í innviðum til að létta undir með verst stöddu hópunum, litlum og meðalstórum fyrirtækjum og tryggja velferðina í landinu.“

mbl.is