Kynrænt sjálfræði fyrir Alþingi

Samtökin 78 fagna réttarbót sem er í frumvarpi um kynrænt …
Samtökin 78 fagna réttarbót sem er í frumvarpi um kynrænt sjálfræði, en gagnrýna að ekki sé lagt bann við skurðaðgerðum á börnum sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. mbl.is/Hanna

Frumvarp til laga um kynrænt sjálfræði hefur nú verið birt á vef Alþingis og er búist við því að málið verði á dagskrá þingsins á næstu dögum. Meðal annars miðar frumvarpið að því að veita einstaklingum sem náð hafa 15 ára aldri heimild til þess að breyta skráningu kyns í Þjóðskrá.

„Við fögnum þessu frumvarpi. Þetta frumvarp er gríðarleg réttarbót, sérstaklega fyrir transfólk, hinsegin fólk og fólk sem skilgreinir ekki kyn sitt. Með þessu frumvarpi er möguleiki á kynhlutlausri kynskráningu,“ segir Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna '78, í samtali við mbl.is.

Hann segir jafnframt að kynleiðréttingarferlinu verði með frumvarpinu komið í mannúðlegri farveg. „Fólk þarf ekki að vera stimplað geðveikt til þess að fá að hefja kynleiðréttingarferli ef það vill hefja slíkt ferli.“

Daníel E. Arnarsson.
Daníel E. Arnarsson. mbl.is/Eggert

Breyta skráningu

Samkvæmt frumvarpinu getur hver sá sem hefur náð 15 ára aldri breytt skráningu kyns í Þjóðskrá. Einnig er stefnt að því að barn yngra en 15 ára geti „með fulltingi forsjáraðila sinna breytt opinberri skráningu kyns síns“.

Þá verður óheimilt að skilyrða þá breytingu við skurðaðgerð, lyfjameðferð, hormónameðferð eða aðra læknismeðferð, svo sem geðlæknismeðferð eða sálfræðimeðferð.

Jafnframt felur breytingin á skráningu í sér rétt til þess að fá útgefin persónuskilríki sem samræmast breyttri skráningu.

Vilja stöðva skurðaðgerðir á börnum

„En það sem við í Samtökunum '78 gagnrýnum hvað harðast er að þarna er ekki að finna réttarbót fyrir intersex börn, sem þýðir að enn þá verður heimilt að framkvæma skurðaðgerð á börnum sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni án þess að brýn læknisfræðileg nauðsyn liggi að baki,“ segir Daníel og bætir við að alvarlegt sé að ekki sé tekið á því og bætir við að stjórnvöld skorti hugrekki.

Hann segir vissulega bráðabirgðaákvæði í frumvarpinu sem snýr að starfi nefndar sem fjallar um þessi mál. „Það er einfaldlega ekki nóg. Við viljum stöðva þessi inngrip og skurðaðgerðir á börnum sem eru ekki brýnar. Við viljum stöðva þessi mannréttindabrot strax,“ segir framkvæmdastjórinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina