Renndu sér 100 sinnum í rennibraut fyrir SÁÁ

Sundlaugin á Akureyri. Mynd úr safni.
Sundlaugin á Akureyri. Mynd úr safni. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Það er mikilvægt að hafa þetta opið fyrir þá sem þurfa að nýta sér þessa þjónustu,“ segir Kolbrún Ósk Jóhannsdóttir, formaður Skólafélagsins Hugins í Menntaskólanum á Akureyri.

Nemendur í MA ákváðu að styrkja göngudeild SÁÁ á Akureyri sem var lokað 1. mars síðastliðinn. Stefnt er að því að safna að minnsta kosti einni milljón króna til handa SÁÁ í góðgerðarviku skólans sem hófst í gær.

Nemendur standa fyrir fjársöfnun til styrktar góðu málefni með söfnun áheita. Nemendur jafnt sem starfsfólk hafa sett sér áheit fyrir ákveðna upphæð og þegar sú upphæð hefur safnast verða áheitin framkvæmd. Margir þurfa að stíga út fyrir þægindarammann enda eru uppátækin fjölbreytt. 

Nú þegar hafa safnast rúmlega 200 þúsund krónur. Tveir fjörugir drengir söfnuðu 100 þúsund krónum og fyrir vikið renndu þeir sér 100 sinnum í rennibrautinni í sundlauginni á Akureyri. Hér fyrir neðan má sjá myndband af því. 


Fjöldi viðburða verður í vikunni þar sem gestum og gangandi gefst tækifæri á að fylgjast með og heita á nemendur. Í dag sitja tveir nemendur í skólanum og tefla og ætla að gera það í allan dag. 

 Áhugasamir geta kynnt sér hinar ýmsu áskoranir sem nemendur taka sér fyrir hendur í vikunni á Facebook-síðu nemendafélagsinsHægt er að leggja inn á reikning 162-15-382074, kt. 470997-2229. 

Samningar hafa ekki náðst milli SÁÁ og Sjúkratrygginga Íslands um rekstur göngudeildarinnar. 

Rennibrautin á Akureyri er skemmtileg.
Rennibrautin á Akureyri er skemmtileg. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert