Upplýsingalög nái til dómstóla

Lögð hafa verið fram frumvörp um að upplýsingalög nái til …
Lögð hafa verið fram frumvörp um að upplýsingalög nái til allra þátta ríkisvalds og um vandaða starfshætti í vísindum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkisstjórnin afgreiddi í dag tvö frumvörp, annað um að upplýsingalög nái til allra þátta ríkisvalds, hitt um starfshætti í vísindum. Annars vegar er um að ræða löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis og hins vegar frumvarp sem fjallar um vandaða starfshætti í vísindum, að því er fram kemur í frétt á vef Stjórnarráðsins.

Meðal helstu breytinga á upplýsingalögum, er að þau „nái til löggjafar- og dómsvalds en ekki einungis til stjórnsýslunnar eins og verið hefur. Jafnframt er kveðið skýrar á um skyldu ráðuneyta til að birta upplýsingar úr málaskrám að eigin frumkvæði“.

Þá er gert ráð fyrir að sérfræðingur taki til starfa með það að markmiði að bæta upplýsingamiðlun og hraða afgreiðslu mála.

Hvað snertir starfshætti í vísindum er talið að fyrir hendi „þurfi að vera úrræði til að skera úr um ef vafamál rísa, m.a. vegna trúverðugleika rannsókna hér á landi í alþjóðlegu samhengi og efling[ar] á vitund um siðferðilegar hliðar rannsókna,“ að því er segir í fréttinni.

Þar segir að lögð sé áhersla á ábyrgð vísindamanna, stofnana og fyrirtækja á að fara eftir settum viðmiðum. Einnig mun, samkvæmt frumvarpinu, komið á nefnd „sem mun skrá viðmið um heiðarleg vinnubrögð í vísindum og gefa álit í vafamálum“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert