Verði merkt með sýklalyfjanotkun

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins. mbl.is/Hari

Þingmenn Miðflokksins hafa lagt fram frumvarp til breytingar á lögum um matvæli þess efnis að matvæli sem boðin eru til sölu verði merkt með upprunalandi og meðalnotkun sýklalyfja við framleiðslu matvæla í viðkomandi landi.

„Markmið frumvarpsins er að bæta miðlun upplýsinga um sýklalyfjanotkun við framleiðslu matvæla til neytenda. Með þessu er tryggt að neytendur séu upplýstir um meðalnotkun sýklalyfja við framleiðslu matvæla í upprunalandi þeirra matvæla sem boðin eru til sölu í matvöruverslunum og geti byggt ákvarðanir sínar um val á matvöru á þeim upplýsingum,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

Bent er á að Lyfjastofnun Evrópu gefi árlega út skýrslu um sölu sýklalyfja sem ætluð séu dýrum í 30 ríkjum Evrópu. Þar megi finna upplýsingar um notkun sýklalyfja í helstu innflutningsríkjum Íslands. Nauðsynlegt sé að auka vitund almennings um efni skýrslunnar enda hafi skort mikið á miðlun upplýsinga til almennings um notkun sýklalyfja við framleiðslu matvæla.

„Hafi almenningur greiðan aðgang að þessum upplýsingum í sölurýmum verslana geta neytendur tekið ákvörðun um frá hvaða ríkjum þeir kaupa matvæli á grundvelli opinberra upplýsinga um notkun sýklalyfja í matvælaframleiðslu.“

Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert