Ámælisvert að bera fyrir sig kyn

Gunnar Bragi sagði Miðflokkinn ekki ætla að senda fulltrúa á …
Gunnar Bragi sagði Miðflokkinn ekki ætla að senda fulltrúa á samkomur Femínistafélags HÍ. mbl.is/Eggert

Femínistafélag Háskóla Íslands segir ámælisvert að ætla að bera fyrir sig kyn til þess að sleppa við gagnrýni á gjörðir einstaklinga og að sem femínistar geri meðlimir þess sér grein fyrir því að konur séu ekki yfir gagnrýni hafnar.

Þetta kemur fram í opnu svari Femínistafélags HÍ við tölvupósti sem félaginu barst frá Gunnari Braga Sveinssyni, þingmanni Miðflokksins, vegna boðs um þátttöku Miðflokksins á málþingi félagsins um frjósemisfrelsi íslenskra kvenna.

Í tölvupósti sínum sagði Gunnar Bragi að vegna undirtekta Femínistafélags HÍ við yfirlýsingu Kvenréttindafélags Íslands sem lesin var upp á fundi Velferðarnefndar 4. mars „og einkenndist af einelti og rógburði gegn eina kvenkyns þingmanni Miðflokksins mun Miðflokkurinn ekki senda fulltrúa á þennan fund eða á aðrar samkomur félagsins að svo komnu máli.“

Í opnu svari Femínistafélagsins segir að félagið taki einróma undir yfirlýsingu Kvenréttindafélags Íslands, yfirlýsingu sem eigi ekkert skylt við einelti eða rógburð, en yfirlýsing Kvenréttindafélagsins hljóðaði svona: „Stjórn Kvenréttindafélags Íslands mótmælir að fulltrúar hennar skuli settir í þá stöðu að þurfa að sitja fund með þingmanni sem tók þátt í hatursorðræðu á Klausturbar í nóvember. Okkur finnst við samt verða að láta rödd okkar heyrast og viljum því taka þátt í fundinum fremur en að sitja heima.“

Femínistafélag HÍ segir að kyn þingmanns Miðflokksins sem sæti eigi í velferðarnefnd komi yfirlýsingunni ekki við, heldur einungis þátttaka viðkomandi þingmanns í Klaustursmálinu og orðum hans þar.

„Félaginu þykir miður að Gunnar Bragi reyni að láta líta út fyrir að yfirlýsing Kvenréttindafélagsins hafi eitthvað með kyn þingmannsins að gera. Það að ætla að bera fyrir sig kyn til að sleppa við gagnrýni á gjörðir einstaklinga þykir okkur ámælisvert. Það er þingflokknum einnig ekki til framdráttar að einungis ein kona sé innan þeirra raða.“

mbl.is