„Farþegar eru ekki pakkar“

Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray.
Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray. mbl.is/Árni Sæberg

„Þau virðast sjá til lands og einhverja landgöngu þar,“ segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line, sem er ánægður með að verkföllum hótelstarfsmanna og rútubílstjóra, sem áttu að hefjast á miðnætti, var aflýst.

„Við erum mjög ánægðir með það og að fólk treysti sér til þess að landa samningum, væntanlega á skynsamlegum nótum,“ segir Þórir. Hann bætir því við að síðustu vikur hafi verið erfiðar.

„Þetta er búið að valda ákveðnum skaða en það er nú bara þannig að þegar menn deila verður oft skaði og við verðum að vinna úr því.“

Spurður hvort hann geri ráð fyrir því að deiluaðilar semji á næstu dögum segist Þórir halda að verkföllum hefði ekki verið aflýst nema farið hafi að sjást til lands í deilunni.

„Ég efast ekkert um það og mér sýnist svona á viðtölum að það sé mikill hugur í fólki um að klára þetta. Það er virkilegt fagnaðarefni.“

Morgundagurinn verður rýr

Þrátt fyrir að verkföllum sé aflýst verður morgundagurinn hjá Gray Line rýr en fyrirtækið var búið að aflýsa einhverjum ferðum. 

„Við berum ákveðna ábyrgð gagnvart okkar viðskiptavinum og hún felst í því að láta þá vita þegar svona aðstæður skapast og við gerðum það í dag og aflýstum ferðum á morgun. Við reyndum að færa fólk á aðra daga og bjóða endurgreiðslu. Hvað við fáum til baka af þeim farþegum vitum við ekki á þessari stundu,“ segir Þórir og heldur áfram:

„Farþegar eru ekki pakkar, þeir bíða ekki bara í einhverri hillu. Þetta er fólk með sjálfstæðan vilja og skoðanir og við verðum að sjá til á morgun hvað skilar sér í ferðirnar. Það kemur dagur eftir þennan dag og næsta dag og maður verður bara að horfa á þetta til lengri tíma.“

Hann, ásamt öðrum stjórnendum fyrirtækisins og starfsfólki sem er ekki í Eflingu, bjó sig undir að keyra rúturnar á morgun. „Það hefði sennilega vantað 80 manns í vinnu en það hefðu verið átta við störf. Þetta hefðu bara verið nokkur prósent af afkastagetu félagsins á svona degi,“ segir Þórir sem leyfir sér að vera nokkuð bjartsýnn:

„Maður verður bara að vona það besta og ég ætla ekki að segja búa sig undir það versta en það blundar í manni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert