Gæsluvarðhald staðfest

Mikill viðbúnaður var á vettvangi er eldurinn braust út.
Mikill viðbúnaður var á vettvangi er eldurinn braust út. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Suðurlands um að karlmaður sem ákærður hefur verið fyrir manndráp á Selfossi sæti áfram gæsluvarðhaldi allt þar til dómur fellur í máli hans en þó eigi lengur en til 16. apríl.

Gefin var út ákæra í málinu í lok janúar og samkvæmt henni er manninum gefið að sök brenna og manndráp með því að hafa 31. október í fyrra lagt eld að pappakassa og gardínum í stofu á neðri hæð íbúðarhúss og valdið þannig eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu, vitandi af karlmanni og konu sem voru gestkomandi í svefnherbergi á efri hæð hússins er eldurinn magnaðist upp. Hafði eldurinn breiðst út um húsið þegar slökkvistarf hófst.

Afleiðingar þess voru að parið lést af völdum kolmónoxíðeitrunar vegna innöndunar á reyk og húsið gjöreyðilagðist. Í ákæru segir enn fremur að ákærði hafi enga tilraun gert til að aðvara fólkið um eldinn eða koma því til bjargar áður en hann yfirgaf húsið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert