Veita 3,5 milljörðum í innviðauppbyggingu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynntu í dag úthlutun á 3,5 milljörðum til uppbyggingu innviða og framkvæmda við ferðamannastaði mbl.is/Kristinn Magnússon

Verja á 1,3 milljörðum króna til landvörslu og leggja hjólaleið við Jökulsárgljúfur sem liggur frá Ásbyrgi í átt að Dettifossi.  Þetta er meðal þeirra verkefna sem þau  Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynntu í Hannesarholti í dag

Ráðherrarnir kynntu í sameiningu um úthlutun á rúmum þremur milljörðum króna vegna verkefnaáætlunar Landsáætlunar um uppbyggingu innviða sem gildir fyrir árin 2019-2021. Bætist þar með rúmur milljarður króna við þá áætlun sem kynnt var í fyrra, að því er fram kemur í fréttatilkynningu. Einnig var tilkynnt um rúmlega 500 milljón króna styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og 1,3 milljarða úthlutun til landvörslu.

Úthlutun tekur til uppbyggingar innviða og annarra verkefna á 130 fjölsóttum stöðum í náttúru Íslands og á öðrum ferðamannastöðum vítt og breitt um landið.  Er markmiðið með úhlutuninni að halda áfram þeirri uppbyggingu innviða, sem þegar er hafin, „til verndar náttúru landsins og menningarsögulegum minjum, sem og uppbyggingar ferðamannastaða“.

Uppbyggingastarf við Goðafoss er nú á lokastigi.
Uppbyggingastarf við Goðafoss er nú á lokastigi. mbl.is/​Hari


„Aldrei hefur meiri fjármunum verið varið til slíkrar uppbyggingar en í tíð núverandi ríkisstjórnar og samhliða hefur fengist betri yfirsýn svo hægt er að forgangsraða verkefnum eftir því hvar þörfin er brýnust. Slík vinnubrögð eru góð fyrir alla – ferðaþjónustuna, ríkissjóð og náttúruna sjálfa sem hagnast mest af öllum. Vatnaskil hafa orðið í umhverfisvernd hér á landi,“ er haft eftir Guðmundi Inga í frétt á vef Stjórnarráðsins.

Áhersla á heildræna nálgun í gengum svæðisheildir

Þetta er í annað skipti sem ráðherrarnir kynna í sameiningu um úthlutun úr landsáætluninni og úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða og hefur innviðauppbygging átt sér stað á fjölda staða um land allt á þeim tíma. Þannig hefur til að mynda verið umfangsmikil uppbyggingu við Dynjanda, unnið hefur verið að stígagerð í Þingvallahrauni og viðgerðum við Rútshelli undir Eyjafjöllum. Þá hefur líka verið unnið að markvissri uppbyggingu við Stuðlagil í Jökuldal sem óvænt varð að vinsælum ferðamannastað.

„Í áætluninni nú er ekki einungis horft til stakra staði í náttúrunni heldur lögð áhersla á heildræna nálgun í gegnum svæðisheildir og skilgreindar leiðir sem liggja á milli staða,“ að því er fram kemur í tilkynningunni. Er Hvítserkur við Vatnsnes nefnt sem dæmi  um stað þar sem bæta eigi öryggi gesta og aðgengi niður í fjöruna. Bætt aðgengi við þrjá manngerða hella við Ægissíðu á bökkum Ytri-Rangár sé þá dæmi um svæðisheild. Þá sé áætlað að ráðast í fyrsta áfanga hjólaleiðar við Jökulsárgljúfur sem liggur frá Ásbyrgi í átt að Dettifossi. 

„Ferðaþjónustan er ein af grunnstoðum íslensks atvinnulífs og hún á allt sitt undir því að við varðveitum töfra íslenskrar náttúru,“ er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu. „Fyrir ári síðan kynnti ríkisstjórnin markvissa sókn í uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum í náttúru Íslands og sannarlega höfum við náð að lyfta grettistaki,“ bætti hún við og kvað íslenska náttúru og ferðaþjónustu eiga að geta blómstrað saman hlið við hlið. 

Styrkir að andvirði 505 milljónum króna eru að þessu sinni veittir úr Framkvæmdasjóð ferðamannastaða til 40 verkefna. Hæsti styrkurinn fer til innviðauppbyggingar við Goðafoss, sem er nú á lokastigi eftir uppbyggingarstarf undanfarinna ára. Önnur verkefni sem fá hærri en 30 milljóna króna styrki eru Breiðin á Akranesi, Laufskálavarða í Álftaveri, Reykjadalur og Hveradalir í Ölfusi.

1,3 milljörðum króna sem verja á til landvörslu á næstu þremur árum og eru ætlaðar til að tryggja ráðningu heilsársstarfsmanna sem og mönnun á háannatíma á fjölsóttum stöðum og friðlýstum svæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert