„Verkfallsvopnið er mjög beitt“

Sólveig Anna Jónsdóttir í kröfugöngu fyrr í mánuðinum.
Sólveig Anna Jónsdóttir í kröfugöngu fyrr í mánuðinum. mbl.is/​Hari

„Það er mikilvægt að það komi fram að við hefðum ekki tekið ákvörðun um að aflýsa þessum verkföllum nema vegna þess að við upplifum að það sé raunverulegur samningsvilji fyrir hendi,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.

Fyr­ir­huguðum verk­föll­um hót­el­starfs­manna og rútu­bíl­stjóra sem átti að hefjast á miðnætti í kvöld og standa í alls 48 klukku­stund­ir hef­ur verið af­lýst. Var það niðurstaðan eftir fund VR, Efl­ing­ar, VLFA, VLFG, LÍV og Fram­sýn­ar með Sam­tök­um at­vinnu­lífs­ins hjá sátta­semj­ara.

„Auðvitað lít ég svo á að við værum ekki komin á þennan stað nema vegna þess að, eins og ég hef ávallt álitið, verkfallsvopnið er mjög beitt vopn. Þvert á það sem hefur verið haldið fram að ég vilji beita verkfallsvopninu af einhverri léttúð þá er alls ekki svo,“ segir Sólveig Anna.

Hún gerir sér fulla grein fyrir því að verkföll eru alvarlegt mál. „Verkfallsvopnið er þó á endanum þetta merkilega tól sem vinnuaflið hefur til að knýja viðsemjendur til að koma í það minnsta með einhverja sanngirni í farteskinu,“ segir Sólveig Anna sem kveðst ekki geta tjáð sig efnislega um það sem rætt var á fundinum í dag.

Fólk bindur vonir við góðan samning

Sólveig Anna segist aðspurð ekki geta sagt til um hvort það sé líklegt að samningar náist á næstu dögum eða ekki. „Það sem ég get sagt er að við munum mæta á morgun og sitja áfram næstu daga í þeim tilgangi, og með þann vilja, að láta eitthvað gerast,“ segir Sólveig en deiluaðilar funda aftur hjá sáttasemjara klukkan 13.00 á morgun.

„Við nálgumst þetta verkefni af mikilli alvöru. Ég horfist í augu við þá miklu ábyrgð sem ég ber gagnvart félögum mínum og fólkinu sem ég fer fyrir. Því fólki sem bindur rosalega miklar vonir við að við náum góðum samningi og við náum árangri,“ segir Sólveig Anna og bætir við að fólkið í hótelunum og bílstjórarnir, sem hafi verið tilbúið að kjósa með verkfalli, hafi lagt á sig ótrúlega mikla vinnu:

„Það er tilbúið að berjast fyrir eigin hagsmunum og eigin réttindum. Þetta er alvarlegur og merkilegur hlutur. Ég vona auðvitað að þetta skili okkur ásættanlegum árangri.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert