Furðu lostnir farþegar

Staðan á Keflavíkurflugvelli þessa stundina.
Staðan á Keflavíkurflugvelli þessa stundina. mbl.is/Hari

Tilkynning WOW air um að öllu flugi félagsins hafi verið aflýst kom flestum í opna skjöldu en tilkynningin var send út á fjölmiðla rúmlega þrjú í nótt, tæpum þremur tímum áður en fyrstu vélar félagsins áttu að fara í loftið frá Keflavíkurflugvelli. Var þá búið að aflýsa komum flugvéla WOW frá Bandaríkjunum og Kanada sem áttu að lenda í Keflavík á fimmta tímanum í morgun. 

Að sögn Guðjóns Ólafssonar, upplýsingafulltrúa Isavia, hefur ekki skapast neitt öngþveiti á Keflavíkurflugvelli vegna þessa í morgun en töluvert af farþegum WOW air var komið út á flugvöll þegar í ljós kom að ekki yrði flogið.

Á samfélagsmiðlum hafa margir tjáð sig um málefni WOW þennan morguninn og hefur það meðal annars vakið athygli fólks að þrátt fyrir að búið sé að aflýsa öllu flugi félagsins þá er enn hægt að kaupa farmiða á vef WOW air. Eins kvartar fólk yfir skorti á upplýsingum en aðeins hefur verið upplýst um að öllu flugi hafi verið aflýst og að von sé á nýjum upplýsingum klukkan 9. WOW sé á lokametrunum að ljúka viðræðum um hlutafjáraukningu við nýjan eigendahóp að félaginu.

Samkvæmt farþega sem flaug með WOW air til Baltimore í gær kom lögregla um  borð í flugvélina áður en viðkomandi fór frá borði. Þessi farþegi veltir því fyrir sér á Twitter hvort vélin hafi verið kyrrsett.






mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert