„Gífurlegt áfall og þungt högg“

Vélar á Keflavíkurflugvelli í morgun.
Vélar á Keflavíkurflugvelli í morgun. mbl.is/​Hari

„Þetta er gífurlegt áfall og þungt högg fyrir stéttina. Hugur okkar er hjá okkar félagsmönnum sem starfa hjá WOW air,“ segir Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, við mbl.is vegna frétta morgunsins um að WOW air hafi hætt starfsemi.

Berglind segir spurð að rúmlega 400 flugfreyjur, sem eru í Flugfreyjufélaginu, hafi starfað hjá WOW air.

Fram kemur í tilkynningu frá Flugfreyjufélaginu að fréttirnar séu gífurlegt áfall fyrir flugfreyjur og flugþjóna sem hafi gengið eld og brennistein fyrir WOW air.

Enn fremur kemur fram að félagið hafi þær upplýsingar að búið sé að tryggja flutning allra starfsmanna heim sem eru staddir erlendis.

Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands.
Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands. Ljósmynd/Heimasíða Flugfreyjufélagsins

Við munum standa þétt við bakið á okkar félagsmönnum og leita allra leiða til að standa vörð um réttindi ykkar og aðstoða með öllum mögulegum hætti við innheimtu launa og annarra réttinda,“ kemur fram í yfirlýsingunni en unnið er náið með lögfræðingum félagsins og ASÍ varðandi næstu skref.

Tekið er fram að launakröfur séu forgangskröfur og að þær séu tryggðar af ábyrgðarsjóði launa. Ekki hafi komið fram hvort eða hvenær verði óskað eftir greiðslustöðvun eða gjaldþrotaskiptum en næstu skref ráðist af því.

Félagsfundur verður haldinn á morgun en hann verður auglýstur síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert