„Hvað verður um farþegana?“

Staðan á Keflavíkurflugvelli þessa stundina.
Staðan á Keflavíkurflugvelli þessa stundina. mbl.is/​Hari

Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur í hagfræðideild Landsbankans, segir að það sem skiptir mestu máli þessa stundina er hvað verður um farþega WOW air sem komast ekki leiðar sinnar vegna þess að flugfélagið hefur lagt upp laupana. Fyrstu viðbrögð stjórnvalda þar að lútandi geti skipt sköpum um framhaldið, ekki síst í ljósi áhrifamáttar samfélagsmiðla.

„Málið í dag er hvernig farþegum sem þurfa að komast heim til Íslands og útlendingum sem þurfa að komast héðan verður komið til aðstoðar. Hvað verður um þá og hvernig verður þeim komið heim er stóra verkefnið í dag,“ segir Sveinn.

Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá Landsbankanum.
Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá Landsbankanum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Atriði eins og hvort þetta fólk fái aðstoð við að komast til síns heima eða hvort fólk þurfi að gera það á eigin spýtur. Verður aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar virkjuð?“ spyr Sveinn og bendir á að nú á fyrstu klukkutímunum frá því ljóst var að hverju stefndi bendi ekkert til þess.

Enn hafi ekkert heyrst í ríkisstjórninni en væntanlega hafi stjórnvöld vaktað fjölda farþega WOW í samstarfi við flugfélagið að undanförnu. „Hvað eru þetta nákvæmlega margir sem eru staddir erlendis núna? Sú tala hefur lækkað töluvert síðustu mánuði en erfitt að átta sig á því hversu margir þeir eru nákvæmlega,“ segir Sveinn. 

Síðan sé þetta spurning um þá erlendu farþega WOW air sem eru hér á landi og áhrif þessa á orðspor landsins.

„Þetta kostar ríkið peninga en enn ekki ljóst hversu mikla peninga,“ segir Sveinn. Eins hvernig verði staðið að þessu. Verður samið við björgunarflugfélag eða eru þetta ekki nægjanlega margir til þess að fara í þá vegferð.

„Við sjáum þegar viðbrögðin. Twitter fer á hliðina. WOW og Ísland er nú meira ruglið,“ segir Sveinn og vísar þar í ummæli fólks á Twitter um stöðu WOW. 

„Þetta getur verið vont og það sem maður hefur kannski mestar áhyggjur af. Það eru útlendingar sem eru fastir hér á landi sem lýsa því hvernig þeir sitja fastir á einhverri eyju og þeir þurfi að greiða háar fjárhæðir til að koma sér héðan. Þetta er ákveðin áhætta og um leið stærsta málið að við höfum aldrei gert þetta áður. Þegar loðnan hverfur þá vitum við hvað gerist því það hefur gerst svo oft. En þetta hefur aldrei gerst áður á þennan hátt. Þannig að óvissan er gríðarleg,“ segir Sveinn. 

Á síðari stigum á eftir að koma í ljós hvort önnur flugfélög muni sjá sér hag í að fylla skarð WOW air og eins hvaða áhrif þetta mun hafa á önnur fyrirtæki í ferðaþjónustu. 



 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert