Loks dæmdur fyrir nauðgunina

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að nauðga sambýliskonu sinni á heimili þeirra í ágúst árið 2015. Samkvæmt ákæru beitti maðurinn konuna ofbeldi og ólögmætri nauðung, fór upp í rúm hennar, reif utan af henni náttföt og nærföt og eftir mikil átök náði hann að yfirbuga hana og nauðgaði henni.

Maðurinn neitaði sök.

Í dómi héraðsdóms segir um málavexti að konan hafi komið á lögreglustöð til að leggja fram kæru 30. september 2015. Greindi hún m.a. frá því við skýrslutöku að maðurinn hefði að næturlagi ruðst inn í herbergi hennar og rifið föt utan af henni. Hafi hann að því loknu þvingað hana til kynferðismaka. Sonur konunnar, 11 ára gamall, hafi þá verið í næsta herbergi og orðið var við árásina. Konan greindi lögreglu einnig frá þremur öðrum tilvikum þar sem maðurinn hefði nauðgað sér þetta sama sumar.

Meðal gagna málsins er vottorð sálfræðings og þar kemur fram að konan hafi leitað aðstoðar hjá áfallateymi Landspítalans í byrjun september 2015. Hafi konunni verið veitt áfallahjálp og sálrænn stuðningur. 

Leitaði til Kvennaathvarfs

Meðal gagna málsins voru einnig upplýsingar frá Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða frá árinu 2015. Þar kemur fram að í lok júní það ár hafi ráðgjafi farið með konuna í Kvennaathvarfið til að fá ráðgjöf vegna sambýlismanns. Í viðtali um miðjan ágúst lýsti konan ofbeldi mannsins, hann hafi hrint henni, rifið harkalega í hár hennar og nauðgað henni í tvígang. Í lok ágúst kom konan aftur til viðtals í Þjónustumiðstöðinni og sagði ástandið á heimilinu óbreytt og að maðurinn hefði nauðgað henni enn einu sinni. Ráðgjafi hvatti hana til að kæra ofbeldið til lögreglu en þegar hann hafi haft samband við rannsóknarlögreglumann hafi konan dregið kæruna til baka þar sem hún óttaðist viðbrögð mannsins.

Í byrjun september greindi konan ráðgjafanum frá því að hún hefði beðið manninn að fara af heimilinu og að hann ætlaði líklegast að flytja út. Hann hafi þá þegar verið fluttur úr sameiginlegu svefnherbergi þeirra. Konan kom svo tveimur dögum síðar með bréf í Þjónustumiðstöðina þar sem hún lýsti því að til harkalegra átaka hafi komið og að maðurinn hafi neitað að flytja út úr íbúðinni.

Samkvæmt upplýsingum frá Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, leitaði konan þangað og kom reglulega í opið hús hjá pólskum konum. Hafði hún lýst alvarlegu heimilisofbeldi í sambandi sínu við manninn, andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Þetta hafi haft í för með sér mikla vanlíðan.

Hættu rannsókn, hófu aftur en hættu á ný

Í maí árið 2016 tilkynnti lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu manninum og konunni að ekki þætti lengur grundvöllur fyrir frekari rannsókn málsins. Um miðjan júní kærði konan þessa ákvörðun lögreglunnar.

Í júlí tilkynnti lögreglustjóri ríkissaksóknara að gögn frá Félagsþjónustu Reykjavíkur hefðu ekki legið fyrir við ákvörðun um að hætta rannsókninni nokkrum vikum fyrr. Í ljósi þeirra gagna þætti tilefni til að halda rannsókninni áfram. Í september var svo ákvörðun um að hætta rannsókn felld úr gildi og lagt fyrir lögreglustjóra að halda henni áfram.

En með bréfi héraðssaksóknara 18. september 2018 var konunni og manninum enn á ný tilkynnt um niðurfellingu á rannsókn málsins. Konan kærði aftur þá ákvörðun til ríkissaksóknara, sem ákvað í desember þetta sama ár að leggja fyrir héraðssaksóknara að gefa út ákæru á hendur manninum fyrir að hafa nauðgað konunni í ágúst 2015. Staðfest var niðurstaða héraðssaksóknara um að fella niður aðra þætti málsins, þ.e. ekki var ákært fyrir þrjár aðrar nauðganir sem konan sagði manninn hafa framið.

Fluttu saman til Íslands

Maðurinn sagði frá því fyrir dómi og í skýrslutöku að hann og konan hefðu kynnst í Póllandi og tekið þar upp sambúð. Þau hafi svo flutt til Íslands árið 2014. Hann neitaði að hafa nauðgað konunni, „það væri alfarið rangt“ og ekkert slíkt hefði átt sér stað. Sagði hann þau hafa glímt við peningavandamál og að konan hafi sífellt viljað meiri peninga. Viðurkenndi hann að til líkamlegra átaka hefði komið á milli þeirra vegna bifreiðar. 

Ótrúverðugur framburður

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að maðurinn hafi orðið missaga um tiltekin atriði málsins og með vísan til misræmis í framburði er hann ótrúverðugur um mikilvæg atriði málsins. Konan hafi aftur á móti verið samkvæm sjálfri sér um meginatriði málsins. Hún hafi lýst miklu ofbeldi af hálfu mannsins sumarið 2015 og fær sú staðhæfing stoð í framburði vitna sem og félagsráðgjafa sem hún leitaði til þetta sumar. Þá liggi fyrir að maðurinn var dæmdur fyrir líkamsárás á konuna sem átti sér stað í september árið 2015. Í kjölfarið fékk konan sett nálgunarbann á manninn. 

Þegar litið er til ótrúverðugs framburðar ákærða um mikilvægt atriði málsins, og hliðsjón höfð af trúverðugum framburði brotaþola, sem stuðning hefur af framburði sonar brotaþola og vitna er brotaþoli var í samskiptum við þetta tiltekna sumar, er að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi brotið gegn brotaþola, svo sem hún staðhæfir. Verður ákærði sakfelldur fyrir nauðgun, með því að hafa þvingað brotaþola til samræðis að nóttu til í ágúst 2015,“ segir í niðurstöðu héraðsdóms.

Konan krafðist átta milljóna króna í miskabætur en manninum er í dómi héraðsdóms gert að greiða henni 1,5 milljónir króna í miskabætur og um þrjár milljónir króna í sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert