Mikilvægt að fylla hratt í skarðið

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta eru auðvitað mikil vonbrigði og töluvert áfall fyrir ferðaþjónstuna,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, um þau tíðindi að WOW air hafi hætt starfsemi.

„Við vonumst til þess að önnur flugfélög geti stigið nokkuð myndarlega inn í þetta gat sem myndast á markaðnum. Við vitum, eins og komið hefur fram, að Icelandair er með áætlun um að stíga inn í þetta rými sem hefur myndast.“

En þetta verður engu að síður högg fyrir ferðaþjónustuna?

„Já, þetta er mikið högg vegna þess að við vitum að sjálfbær áfangastaður jafnar sig á svona höggi á lengri tíma, það er að segja að á sex til tólf mánuðum má gera ráð fyrir því að höggið jafni sig hvað varðar framboð flugsæta. En okkar vandamál í ferðaþjónustunni sem heild snýr að því hversu hratt það getur gerst núna þegar háannatímabilið er inni í þessum fyrstu sex mánuðum.“

Tekur tíma að endurskipuleggja áætlanir

Hann segir alltaf taka tíma að „koma flugvélum í loftið“ og endurskipuleggja flugáætlanir. „Svo núna snýst þetta kannski um þann sveigjanleika sem flugfélög sem þegar fljúga hingað hafa, hvernig þau geta komið inn í þetta og hvernig þau sjá sér hag í því.“

Jóhannes bendir á að árstíðarsveifla ferðaþjónustunnar hér á landi sé enn mikil. „Það þýðir að tekjumyndun ferðaþjónustufyrirtækjanna fer að meginhluta til fram yfir sumartímann og vikurnar beggja vegna við. Ef það raskast mjög mikið getur það haft mjög slæm áhrif á lífvænleika margra ferðaþjónustufyrirtækja sem eru nú þegar rekin með tapi eða mjög litlu svigrúmi. Þau mega ekki við mjög miklu höggi á tekjuhliðina.“

Spurður hvort hann sjá fyrir sér gjaldþrot hjá ferðaþjónustufyrirtækjum eða uppsagnir starfsmanna segir hann erfitt að segja til um slíkt á þessari stundu. „Við vitum því miður af því að það hefur verið hagræðingarfasi í gangi hjá mörgum fyrirtækjum svo það var hvort eð er von á breytingum og uppsögnum hjá einhverjum fyrirtækjum. En það verður síðan að koma í ljós hversu mikil niðursveifla kemur út úr þessu. Við vitum að hún verður töluverð en spurningin er bara hversu mikið verður hægt að halda á móti.“

Stjórnvöld geta gripið til aðgerða

Hann segir að Icelandair sé mjög mikilvægt í því sambandi. En ekki síður segir hann nú koma til kasta stjórnvalda, „hvaða aðgerðum þau geti mögulega beitt til að ýta undir það að það gerist hratt að sætaframboð aukist“.

Bendir hann sérstaklega á Isavia í því tilliti sem gæti ýtt með einhverjum hætti undir það að flugfélög sem þegar eru að fljúga til landsins geti bætt við vélum á tímum þar sem er lítið álag á flugvellum og þar fram eftir götunum.

Spurður sérstaklega um Ameríkumarkaðinn, sem WOW einbeitti sér m.a. að og hefur síðustu misseri verið einn mesti vaxtarsprotinn í ferðaþjónustunni hér á landi, segir Jóhannes ljóst að þar verði áhrifin töluverð. „Það er engin leið að vita það núna hvernig þeir sem hyggjast stíga inn í þessar aðstæður á flugmarkaði sjá fyrir sér hvaða flugleggi þeir taki upp, hvernig það muni raðast niður. Þannig að það er ómögulegt að spá fyrir um það núna hvernig sú þróun verður.“

Enn og aftur skipti því miklu máli að stjórnvöld ýti með einhverjum hætti undir að flugfélög sjái sér hag í að fljúga hingað og að sætaframboðið detti ekki niður í miklum mæli. „Það er það sem þarf að gerast. Við vitum að íslenska flugfélagið mun nýta sveigjanleika sinn til þess að koma til móts við þetta ástand en spurningin er síðan hvaða möguleika önnur flugfélög sjá í því og við teljum að einhver þeirra muni sjá möguleika í því að auka við sig en hversu hratt það gerist er í raun stóra spurningin.“

Mun hafa skammtímaáhrif á orðspor

Hvaða áhrif heldur þú að gjaldþrot WOW air hafi á ímynd Íslands sem áfangastaðar?

„Það hefur aldrei góð áhrif á ímynd og orðspor þegar svona gerist,“ svarar Jóhannes. „Við erum hins vegar með annað íslenskt flugfélag og við vitum að það verður lagt allt kapp á, í samvinnu stjórnvalda og Icelandair, að bjarga strandaglópum til síns heima. Og ég hef trú á að það muni takast vel. Ég tel að við ættum að gera okkur grein fyrir að þetta mun vissulega hafa áhrif á orðspor Íslands sem áfangastaðar en ef vel tekst til að leysa úr málinu þá held ég að við getum vonast til þess að þau áhrif verði ekki slík að það muni hafa mjög neikvæð áhrif til langs tíma. En það hefur skammtímaáhrif, það er alveg klárt mál.“

Jóhannes segist reyna að vera bjartsýnn og jákvæður um framhaldið. Annað sé ekki í boði. „Við þurfum núna að horfa á hvað við getum gert. Nú þurfum við að horfa svolítið í framrúðuna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert