„Synd því mér leist vel á flugfélagið“

Paolo og Luana voru á leið til Dublin. Þau höfðu …
Paolo og Luana voru á leið til Dublin. Þau höfðu beðið á flugvellinum í alla nótt. mbl.is/​Hari

Það var rólegt um að litast á Keflavíkurflugvelli um áttaleytið í morgun, einhverjir voru þó að bóka sig í flug og sjá mátti misþreytta farþega bíða eftir að komast í flug. Lítil merki voru á flugvellinum um WOW air, sem tilkynnt var um gjaldþrot hjá nú í morgun, fyrir utan lógó flugfélagsins á vélunum sem notaðar eru til innskráningar og á stöku innritunarstað.

Stöku farþegar voru augsýnilega þreyttari en aðrir og þó að flestum farþegum WOW air hafi þá þegar tekist að fá flug frá Íslandi mátti sjá stöku eftirlegukindur á kaffihúsi Joe and the Juice, greinilega búnar að búa sig undir lengri bið á flugvellinum en til stóð.

Í einu horninu voru þau Paolo og Luana, Brasilíubúar sem búsettir eru í Dublin. Luana hafði hreiðrað um sig og reyndi að ná smá blundi á meðan Paolo kíkti í snjallsímann.

„Ég er vonsvikin og þreytt,“ segir Luana við mbl.is. Þau höfðu hafst við á flugvellinum í nótt og fengu SMS á fjórða tímanum í nótt um að flugi þeirra með WOW air til Dublin hefði verið aflýst.

Þetta var í fyrsta skipti sem þau ætluðu að fljúga með WOW air og segja þau það hafa verið vonbrigði að fá þessar fréttir. „Þetta var fyrsta ferð okkar til Íslands og við elskum landið, en svo gerist þetta,“ segir Paolo.

Fjöldi farþega WOW air þusti að skrifstofu Icelandair og reyndi …
Fjöldi farþega WOW air þusti að skrifstofu Icelandair og reyndi á fá miða þegar tilkynnt var um að flugi hefði verið aflýst. mbl.is/​Hari

Líkt og aðrir farþegar WOW air þennan morguninn tóku þau stefnuna beint á ferðaskrifstofu Icelandair í von um að fá miða til Dublin þar. Paolo segir röðina hafa verið langa og ákveðna ringulreið hafa ríkt á flugvellinum á þeim tíma. Starfsmenn Isavia á flugvellinum hafi verið þeir einu sem reyndu að leiðbeina fólki. Þau voru snemma á ferðinni og gátu fengið miða með Icelandair, en fannst það of dýrt.

„Þeir voru að rukka 500 evrur (tæpar 70.000 kr.) fyrir farmiðann og það er of dýrt fyrir okkur,“ segir Paolo. „En okkur tókst að fá flug til Bristol og svo flug þaðan heim til Dublin fyrir minni pening.“ Sú vél á að fara í loftið klukkan 11. „Ég vona alla vega að þeirri vél verði ekki aflýst líka,“ segir Paolo og brosir.

„Ég er bara reiður yfir þessu“

Ekki eru allir þeir sem áttu miða með WOW og nú bíða á kaffihúsinu tilbúnir að ræða við fjölmiðla, en ljóst er að þeir eru ekki allir sáttir. „Ég er bara reiður yfir þessu,“ segir bandarískur maður sem situr þar með konu sinni, en þau voru líka á leið til Dublin og var ferðin til Íslands fyrsta ferð þeirra með WOW air. „Þetta er synd því mér leist vel á flugfélagið, en svo gerist þetta,“ segir konan sem ekki vildi heldur láta nafns síns getið.

Kimjal frá Indlandi sér fram á langan dag á Keflavíkurflugvelli.
Kimjal frá Indlandi sér fram á langan dag á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/​Hari

Á einum af plastbekkjum Keflavíkurflugvallar situr Kimjal frá Indlandi og býr sig undir langan dag á flugvellinum. Hann hefur dvalið í Reykjavík undanfarna daga og var á leið til Amsterdam. „Því miður var öllu flugi WOW air aflýst,“ segir hann og segir þetta óneitanlega svekkjandi. „Ég frétti snemma í morgun að fluginu hefði verið aflýst, en þá var ég þegar kominn út á flugvöll.“ 

Hann segist ekki hafa orðið var við neinn fulltrúa WOW air á flugvellinum áður en tilkynnt var um gjaldþrotið, en flugvallarstarfsmaður hafi látið hann vita að hann þyrfti að afbóka miða sinn. „En utan þess ekkert,“ bætir Kimjal við.

Spurður hvort hann sé búinn að fá annað flug til Amsterdam segir hann svo vera. „Mér tókst að fá flug með Lufthansa til Amsterdam í kvöld.“ Gjaldþrot WOW air hafi þó áhrif á ferðaáætlun hans. „Ég ætlaði að vera þrjá daga í Amsterdam en nú kem ég ekki þangað fyrr en seint í kvöld þannig að þeir verða bara tveir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert