Um nokkur þúsund farþega að ræða

Unnið er að því að koma nokkur þúsund farþegum WOW …
Unnið er að því að koma nokkur þúsund farþegum WOW air til síns heima. mbl.is/Hari

Nokkur þúsund manns áttu bókað flug með WOW air til og frá landinu í nótt og dag og er unnið að því að veita þeim aðstoð og lágmarka tjón þeirra, segir forstjóri Samgöngustofu, Þórólfur Árnason.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir í skilaboðum til starfsfólks Icelandair að unnið sé að því að aðstoða farþega WOW við að komast heim. Um sorgarfréttir sé að ræða fyrir flugstarfsemi og ferðaþjónustu á Íslandi. „Við vinnum nú samkvæmt viðbragðsáætlun okkar um að aðstoða þá flugfarþega sem á þurfa að halda að komast heim,“ segir meðal annars í tölvupósti sem Bogi Nils sendi á allt starfsfólk Icelandair í morgun. 

Forstjóri Samgöngustofu, Þórólfur Árnason.
Forstjóri Samgöngustofu, Þórólfur Árnason. mbl.is/Golli

Fyrst og fremst vonbrigði

„Þetta eru fyrst og fremst vonbrigði að eiganda og stjórn tókst ekki að fá inn nýtt fjármagn eins og stefnt var að,“ segir Þórólfur. Hann segir að WOW hafi unnið náið með Samgöngustofu og sýnt þá ábyrgð að skila inn flugrekstrarleyfi sínu í morgun.

Ákvæði í lögum heimilar að veita flugrekanda rétt til að fara í fjárhagslega endurskipulagningu og að vera undir sérstöku eftirliti á meðan.

„Það hefur gengið mjög vel og flugöryggi alltaf tryggt. Félagið hefur staðið sig mjög vel í því. Viðhaldsverkefnum, þjálfun, kaupum á varahlutum og öðru sem þarf að vera í lagi til þess að öryggi sé tryggt. Þannig að það var ábyrg afstaða hjá þeim í morgun að skila inn flugrekstrarleyfinu,“ segir Þórólfur. 

Leyfinu skilað inn á níunda tímanum

Að sögn forstjóra Samgöngustofu var það á níunda tímanum í morgun sem WOW skilaði inn leyfinu en í nótt var tekin ákvörðun um að fljúga vélunum ekki frá Ameríku, það er fjórum flugvélum frá Bandaríkjunum og tveimur frá Kanada. 

Þórólfur segir að greinilegt sé að beðið var fram á síðustu stundu eftir því hvort fjármögnun fengist. Þannig að það var þeirra ákvörðun að fljúga vélunum ekki heim og létu okkur vita af því. Síðan var það á níunda tímanum í morgun sem þeir tilkynntu okkur um að þeir vildu skila inn leyfinu því þeir teldu ekki að fjármögnun tækist eins og vonir stóðu til,“ segir Þórólfur.

Spurður út í frétt um að flugvélaleigusalar WOW air hafi látið kyrrsetja vélar félagsins í Bandaríkjunum í nótt segir Þórólfur að það sé ekki hans að svara slíkum spurningum. Það sé í höndum WOW air að svara slíkum spurningum sem eru viðskiptalegs eðlis og varða ekki flugöryggi. 

Viðbragðshópur Samgöngustofu hóf starfsemi snemma í morgun en hann hefur verið í viðbragðsstöðu í einhvern tíma vegna WOW air enda hafi staðið mjög tæpt hjá WOW air 28. febrúar hvað varðar flugferðir á vegum félagsins. 

Vitað er að á milli 1.300 og 1.400 farþegar áttu bókað flug til Íslands með sex flugvélum WOW air frá Ameríku í nótt. Hluti þeirra átti bókað framhaldsflug með WOW eða öðrum flugfélögum frá Íslandi. Síðan eru um 1.400 manns sem reiknuðu með að komast til Íslands í dag til viðbótar við þá sem ætluðu að koma hingað í nótt.

Tilkynnt um björgunarfargjöld hjá IATA

Þórólfur segir að erfitt sé að sjá á þessari stundu hver mikill bráðavandinn er en innan IATA (Alþjóðasambands flugfélaga) er viðbragðsáætlun í slíkum tilvikum að bjóða björgunarfargjöld og þegar komið af stað slíkt ferli. Tilkynningar um slík tilboð verða birtar á vef IATA  þannig að það er strax byrjað að bregðast við, segir Þórólfur. 

„Síðan sést betur þegar líður á daginn hversu margir eru strandaglópar á þeim áfangastöðum sem þeir eru á,“ segir Þórólfur og vísar til þess að flugfélög sem eru starfandi á sömu starfsstöðvum og WOW air bjóða nú upp á björgunarfargjöld til farþega WOW air. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert