Viðbragðsáætlun Vinnumálastofnunar gangsett

Vinnumálastofnun
Vinnumálastofnun mbl.is/Ómar Óskarsson

Vinnumálstofnun setti strax í morgun í gang sérstaka viðbragðsáætlun vegna WOW air og stöðvunar á starfsemi félagsins fyrr í dag. Unnur Sverrisdóttir forstjóri stofnunarinnar segir í samtali við mbl.is að enn sé of snemmt að tala um krónur og aura í þessu samhengi, en ljóst sé að málið hafi mikil áhrif. „Við erum enn að bíða eftir upplýsingum um fjölda þeirra sem missa vinnuna, og hversu langan uppsagnarfrest fólk á og annað. Þetta snýr að tveimur stórum sjóðum hjá okkur, atvinnuleysistryggingasjóði og ábyrgðasjóði launa, en hann tryggir ógreiddar launakröfur og laun í uppsagnarfresti.“

Unnur bendir á að ákveðinn óvissuþáttur sé líka hvað útgjöldin varðar, sem snýr að því hve fljótt fólk fái starf á ný.

Spurð nánar út í viðbragðsáætlunina segir Unnur að í henni felist upplýsingagjöf, bæði á vef stofnunarinnar og í sérstakri orðsendingu sem birt var í morgun, og sagt var frá á mbl.is fyrr í dag.

„Svo höfum við verið að bæta við mannskap á síma og í þjónustuveri. Þá ætlum við að lengja opnunartíma okkar á morgun til klukkan fjögur, en við lokum alla jafna klukkan 13 á föstudögum. Við erum einnig í nánu sambandi við Alþýðusambandið og reynum að láta flæða upplýsingar þar í gegn.“

Risastórt á íslenskan mælikvarða

Um það hvort að mikið álag hefði verið á starfsfólki stofnunarinnar í morgun segir Unnur svo ekki hafa verið, og segir að mögulega sé það lognið á undan storminum.

Unnur segir aðspurð að hún muni ekki í svipinn eftir viðlíka fjölda starfsmanna eins fyrirtækis sem missi vinnuna í einu vetvangi og nú er að gerast. „Þetta er það stórt að málið fer ekki inn í hefðbundinn afgreiðsluferil hér. Við erum með sérstakt fólk í þessu. Þetta er risastórt á íslenskan mælikvarða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert