„Börn eiga að njóta vafans“

Ef vafi leikur til dæmis á því hvort umsækjandi um …
Ef vafi leikur til dæmis á því hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd sé 17 eða 18 ára skal viðkomandi njóta vafans, segja sérfræðingar í málefnum mannréttinda. AFP

Rifjum upp aðstæður barna sem koma hingað til Evrópu í leit að skjóli. Þau hafa yfirgefið heimaland sitt og lagt af stað í hættulegan leiðangur. Mörg þeirra eiga eftir að verða fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis og mansals, segir Tomáš Boček, sérstakur fulltrúi Evrópuráðsins í málefnum flóttamanna. 

„Ef þau eru svo heppin að drukkna ekki á flóttanum og komast að lokum til Evrópu. Þar er þeim komið fyrir í búðum ásamt fullorðnum. Sumum þeirra er haldið í fangabúðum og hafa ekki aðgang að læknis- eða sálfræðiaðstoð. Sum þeirra enda á götunni. Það eru ekki til neinar skjalfestar upplýsingar um hversu mörg þau eru,“ bætir hann við.

Boček var meðal ræðumanna á málþingi um framkvæmd aldursgreininga á flóttabörnum í Evrópu og ný tilmæli Evrópu í Þjóðminjasafninu í morgun. Málþingið var skipulagt í samvinnu Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, alþingismanns og varaforseta Evrópuráðsþingsins og starfsfólki átaksverkefnis Evrópuráðsins um að binda endi á frelsissviptingu barna á flótta.

Móttökurnar geta skipt sköpum

Boček segir að oft geti skipt öllu máli hvað varðar framtíð þessara barna hvernig móttökurnar eru sem þau fá við komuna til Evrópu. Mikilvægast af öllu er að börnin fái talsmann (guardian) sem verndar þau og forðar frá þeim frá brottvísun. Það hefur sýnt sig, að hans sögn, að ef þessi börn njóta skólagöngu og fá að vera hluti af samfélaginu áður en þau verða 18 ára gömul þá farnast þeim betur í lífinu. 

Börn á aldrinum 14-18 ára eru skilgreind sem fullorðin af …
Börn á aldrinum 14-18 ára eru skilgreind sem fullorðin af sumum ríkjum. Til að mynda Ungverjalandi. AFP

Réttindi barna eiga að vera tryggð og þau eiga að ganga enn lengra en réttindi fullorðinna. Í sumum ríkjum Evrópusambandsins er þessi réttur ekki tryggður þegar kemur að börnum sem eru til að mynda fylgdarlaus á flóttanum. 

Skilgreind fullorðin 14 ára gömul

Eitt af helstu verkefnum Tomáš Boček í starfi er að bæta stöðu barna sem hafa leitað skjóls í Evrópu og er höfundur aðgerðaráætlunar sem ráðherraráð Evrópuráðsins hefur samþykkt.  

Aldursgreiningar á börnum er eitt af því sem notað er til þess að staðfesta aldur barns ef það er ekki með fæðingarvottorð eða önnur skjöl, sem sanna aldur, meðferðis. Hann segir að ólíkar aðferðir séu notaðar við aldursgreiningar og það hafi verið harðlega gagnrýnt hvernig staðið er að þeim í sumum ríkjum Evrópu, svo sem Frakklandi.

Boček kynnti í erindi sínu ályktun Evrópuráðsins um mikilvægi þess að verja börn fyrir kynferðislegri misnotkun og ofbeldi, ekki síst börn á flótta. Eitt af því sem þar er fjallað um er vandamál varðandi aldursgreiningar og forsendur á bak við það hvernig þær fara fram. Til að mynda eru fylgdarlaus börn á aldrinum 14-18 ára sett í flokk með fullorðnum í löndum eins og Ungverjalandi og þeim komið fyrir í gegnumferðarsvæði (transit zone) á landamærum þar sem þau eru í gríðarlega mikilli hættu á að verða fórnarlömb kynferðislegrar misneytingar og kynferðislegs ofbeldis.

Aðferðir sem vekja áhyggjur

Börn eiga að njóta vafans, ef vafi leikur á um hvort þau eru 17 ára eða 21 árs þá á að aldursgreina þau sem börn, það er 17 ára. Þetta er meðal þess sem kom fram á málþinginu í morgun en ein þeirra sem þar fluttu erindi er Daja Wenke, sem er með langa sérfræðireynslu í málefnum barna á flótta. 

Wenke vann skýrslu fyrir Evrópuráðið um hvernig staðið er að aldursgreiningum barna sem eru á flótta í aðildarríkjum Evrópuráðsins. Í skýrslunni er farið yfir það hvernig staðið er að aldursgreiningum í 37 ríkjum af þeim 47 sem eiga aðild að ráðinu. Meðal annars Íslandi en skýrsluna er hægt að lesa hér.

Wenke segir að það veki áhyggjur af þeim aðferðum sem notaðar í einhverjum þessara ríkja þar sem hún segir að þær geti mögulega valdið sálrænum skaða.

Tomáš Boček.
Tomáš Boček. Evrópuráðið

Sjö af ríkjunum 37 rannsaka kynþroska barna og níu ríki kanna líkamsþroska þeirra. 24 ríki taka röntgenmyndir af úlnlið og 19 lönd (þar á meðal Ísland) taka rönt­gen­mynd­ir af tönnum. 

Daja Wenke segir að slíkar aldursgreiningar eigi aldrei að gera án þess að barnið og talsmaður þess sé upplýst um ferlið en það er ekki gert í 11 þessara ríkja. Í 11 af löndunum 37 er jafnvel ekki gefinn kostur á að neita því að fara í slíkar aldursgreiningar.

Er það niðurstaða Wenke að ekki eigi að gera slíkar aldursgreiningar ef það er barninu í hag og að tryggja þarf að barnið hafi rétt á að tjá skoðanir sínar og alls ekki séu  gerðar slíkar greiningar ef talsmaður barnsins eða barnið sjálft hefur ekki fengið tækifæri til þess að taka upplýsta ákvörðun um að fara í slíka greiningu. Eins að hægt sé að áfrýja niðurstöðunni, segir Wenke.

18 fylgdarlaus börn hingað í fyrra

Lögfræðingur Rauða krossins, Anna Finnbogadóttir, fór yfir það hvernig staðið er að aldursgreiningum hér á landi en samkvæmt samningi við Útlendingastofnun og dómsmálaráðuneytið þá annast Rauði krossinn málefni barna á flótta hér á landi. Til að mynda með skipun tilsjónarmanns (talsmanns). Í fyrra komu hingað til lands 18 fylgdarlaus börn á flótta, 15 strákar og 3 stelpur. 

Rauði krossinn leggst gegn því að tanngreiningar séu notaðar við aldursgreiningar barna og frekar eigi að styðjast við heildstætt mat við aldursgreiningar, svo sem með viðtölum í Barnahúsi. Viðtölin séu tekin af okkar bestu sérfræðingum í málefnum barna, sálfræðingum og félagsráðgjöfum, segir Anna en Rauði krossinn og UNICEF sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu varðandi málefni barna og réttindi þeirra.

Börn eigi einnig, alltaf, að njóta vafans. Ef vafi leikur til dæmis á því hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd sé 17 eða 18 ára skal viðkomandi njóta vafans. 

Rósa Björk, Jóna Þórey, Tomáš Boček, Daja Wenke og Anna.
Rósa Björk, Jóna Þórey, Tomáš Boček, Daja Wenke og Anna.

Undir þetta tekur formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, Jóna Þórey Pétursdóttir, en ráðið lýsti nýverið yfir mikl­um von­brigðum með ákvörðun há­skólaráðs vegna af­greiðslu þjón­ustu­samn­ings við Útlend­inga­stofn­un varðandi ald­urs­grein­ing­ar á ung­um hæl­is­leit­end­um á Íslandi.  

Aldursgreiningar á börnum hafa verið töluvert til umræðu á Íslandi undanfarin ár og í umsögn landlæknis við fyrirspurn heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, kemur fram að ekki yrði annað séð en að þeir sérfræðingar sem sinna aldursgreiningum á tönnum vinni samkvæmt faglegum kröfum og af virðingu við viðkomandi einstaklinga.

„Réttarlæknisfræðilegar aldursgreiningar barna og ungmenna byggist á alþjóðlegum, vísindalega viðurkenndum og gagnreyndum aðferðum. Nákvæmni aldursgreininga á tönnum sé umtalsverð en ekki óskeikul frekar en aðrar læknisfræðilegar rannsóknir. Tók landlæknir fram að hann teldi aldursgreiningar á tönnum samræmast siðareglum lækna.

Fyrirspurn á Alþingi frá Loga Einarssyni

Útlendingastofnun átti engan fulltrúa meðal ræðumanna á málþinginu né heldur í pallborðsumræðum. Á vef stofnunarinnar segir svo um aldursgreiningar:

„Rétt á alþjóðlegri vernd sem flóttamenn hér á landi eiga einstaklingar sem sæta ofsóknum í heimalandi sínu eða eiga þar á hættu dauðarefsingu, pyndingar eða ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Engin skilyrði eða kröfur eru gerðar um aldur við ákvörðun um veitingu verndar. Aldur er hins vegar hluti af auðkenni einstaklings og við mat á þörf og rétti umsækjanda um alþjóðlega vernd til tiltekinnar þjónustu er mikilvægt að fyrir liggi hvort umsækjandi sé barn eða fullorðinn.

Börn eiga rétt á stuðningi og aðstoð í samræmi við stöðu sína sem börn, t.d. aðgengi að menntun, aukið aðgengi að heilbrigðisþjónustu umfram fullorðna og eftir atvikum öðrum félagslegum stuðningi og aðstoð. Þá ber að taka tillit til sérstakrar stöðu barna þegar metið er hvort viðkomandi og aðstæður hans uppfylli skilyrði alþjóðlegrar verndar. Hluti af því að tryggja sérstök réttindi barna er jafnframt að tryggja að fullorðnir einstaklingar séu ekki ranglega álitnir börn og vistaðir með börnum.

Heildræn nálgun við ákvörðun aldurs

Við rannsókn á aldri einstaklings sem sækir um alþjóðlega vernd og kveðst vera fylgdarlaust barn fer fram heildstætt mat á aðstæðum og frásögn viðkomandi af ævi sinni en auk þess má beita líkamsrannsókn til greiningar á aldri. Geti umsækjandi ekki fært sönnur á aldur sinn er til dæmis reynt að varpa ljósi á reynslu umsækjanda á ólíkum aldursskeiðum sem gæti rennt stoðum undir framburð um aldur. Ef grunur leikur á að umsækjandi sem segist vera barn sé lögráða, og ekki er hægt að staðfesta það á óyggjandi hátt, er Útlendingastofnun skylt að leggja fyrir umsækjanda að gangast undir líkamsrannsókn til þess að ákvarða um aldur. Slík rannsókn fer þó einungis fram með upplýstu samþykki umsækjanda.

Líkamsrannsókn til aldursgreiningar felst hér á landi í greiningu á aldri út frá tannþroska. Til að tryggja sem mesta nákvæmni er fjórum mismunandi aðferðum beitt og gefinn upp meðalaldur samkvæmt þeim og staðalfrávik. Er þetta gert til að tryggja að vafi sé metinn umsækjanda í hag og viðkomandi ekki greindur eldri en hann er í raun og veru. Þess má geta að á hinum Norðurlöndunum er aldur einnig greindur út frá þroska tanna en samhliða er þar notast við greiningu á þroska beina. Danir einir greina aldur auk þess út frá kynþroska.

Niðurstaða líkamsrannsóknarinnar er ekki ein og sér lögð til grundvallar við mat á aldri heldur er hún metin í samhengi við önnur atriði málsins svo sem frásögn umsækjanda og fyrirliggjandi gögn. Neiti umsækjandi að gangast undir líkamsrannsókn til aldursgreiningar er aldur viðkomandi metinn á grundvelli trúverðugleika og gagna málsins.

Áhrif aldurs á málsmeðferð

Mat á aldri umsækjanda felur ekki í sér afstöðu til umsóknar viðkomandi um alþjóðlega vernd. Við rannsókn á aðstæðum umsækjanda er litið til frásagnar, framlagðra gagna og þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í upprunaríki viðkomandi. Aldur getur ekki verið grundvöllur alþjóðlegrar verndar en hann er einn þeirra þátta sem litið er til við einstaklingsbundið heildarmat á þörf hvers og eins fyrir alþjóðlega vernd. Ef aðstæður umsækjanda falla undir flóttamannahugtakið eða viðbótarvernd fær hann réttarstöðu flóttamanns hér á landi óháð því hvort hann er barn eða fullorðinn.

Útlendingastofnun fagnar því að stúdentaráð Háskóla Íslands láti sig aldursgreiningar umsækjenda um alþjóðlega vernd varða og hvetur ráðið til að kynna sér málið frá öllum hliðum,“ segir á vef Útlendingastofnunar.

Tennur segja svo margt sem bein gera ekki.
Tennur segja svo margt sem bein gera ekki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Engum hafnað á grundvelli tanngreininga hér á landi

Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Loga Einarssonar um hversu mörgum umsækjendum um alþjóðlega vernd hefur verið hafnað á grundvelli tanngreininga hér á landi? Var svarið engum.

Óheimilt er að byggja synjun á umsókn um alþjóðlega vernd eingöngu á því að viðkomandi hafi neitað að undirgangast aldursgreiningu skv. 3. málsl. 2. mgr. 113. gr. útlendingalaga. Þá fer fram heildstætt og einstaklingsbundið mat í hvert sinn sem umsókn um alþjóðlega vernd er tekin til afgreiðslu óháð aldri viðkomandi. Samkvæmt lögum eiga einstaklingar sem sæta ofsóknum í heimalandi sínu eða eiga þar á hættu dauðarefsingu, pyndingar eða ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi óháð aldri,“ sagði meðal annars í svari þáverandi dómsmálaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert