Frítekjumark námsmanna hækkar um 43%

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Frítekjumark námsmanna hækkar um 43% og fer úr 930.000 krónum á ári í 1.330.000 krónur samkvæmt nýjum úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir námsárið 2019/2020.

Hækkunin kemur til móts við óskir námsmanna sem bent hafa á að frítekjumarkið hafi ekki verið hækkað í takt við verðlagsbreytingar og launahækkanir síðan árið 2014, að því er kemur fram í tilkynningu.

Umfangsmikil kerfisbreyting á fyrirkomulagi Lánasjóðs íslenskra námsmanna er í farvatninu en ráðgert er að nýtt frumvarp um sjóðinn verði lagt fram á Alþingi í haust.

mbl.is/Hjörtur

Breytingarnar felast meðal annars í því að námsstyrkur ríkisins verði gagnsærri og meira jafnræði verði meðal námsmanna og mun nýju kerfi þannig svipa meira til norrænna námsstyrkjakerfa. Stefnt er að því að nýtt stuðningskerfi taki gildi frá og með haustinu 2020.

Námsaðstoðin sem sjóðurinn mun veita verður áfram í formi lána á hagstæðum kjörum og til viðbótar verða beinar styrkjagreiðslur vegna framfærslu barna og 30% niðurfelling á hluta af námslánum við lok prófgráðu innan skilgreinds tíma.

Stefnt er að því að bæta fjárhagsstöðu nemenda, ekki síst þeirra sem hafa börn á framfæri, og hvetja nemendur til að klára nám sitt á tilsettum tíma, að því er kemur fram í tilkynningunni.

Í því felst ávinningur fyrir námsmenn sem og þjóðhagslegur ávinningur fyrir samfélagið allt sem útreikningar gera ráð fyrir að geti numið allt að 1,2 milljörðum króna á ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert