Gagnrýna skipun skiptastjóra yfir þrotabúi WOW

Saga Ýrr Jónsdóttir lögmaður og Kristrún Elsa Harðardóttir, lögmaður og …
Saga Ýrr Jónsdóttir lögmaður og Kristrún Elsa Harðardóttir, lögmaður og fyrrverandi formaður Félags kvenna í lögmennsku, segja talsverðrar óánægju gæta meðal lögmannastéttarinnar vegna skipunar skiptastjóra yfir þrotabúi WOW air. Samsett mynd

Lögmennirnir Kristrún Elsa Harðardóttir og Saga Ýrr Jónsdóttir segja að nauðsynlegt sé að gerðar verði breytingar á ógagnsæu ferli við skipun skiptastjóra í þrotabúum. Óánægju gæti meðal hluta lögmannsstéttarinnar vegna skipunar skiptastjóra yfir þrotabúi WOW air.

Þetta kom fram í viðtali við þær í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

„Það er enginn hissa á því að tveir miðaldra karlmenn séu skipaðir yfir þessu stóra búi, það er bara það sem gengur og gerist á hverjum einasta degi í okkar bransa, því miður, okkur konunum virðist ekki vera treyst fyrir þessum stóru búum,“ segir Kristrún Elsa. Hæstaréttarlögmennirnir Sveinn Andri Sveins­son og Þorsteinn Einarsson voru skipaðir skiptastjórar þrotabús WOW air í gær.

Kristrún Elsa og Saga Ýrr segja í samtali við mbl.is að gagnrýni á skipunina snúist frekar að því að verið sé að skipa Svein Andra skiptastjóra þar sem hann sé nú þegar skiptastjóri yfir stóru búi, EK 1923, og ágreiningsmál sé til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem fjórir kröfuhafar hafa lagt fram kvörtun gegn Sveini Andra þar sem þau telja að hann hafi ekki upp­lýst kröfu­hafa um mik­inn áfall­inn kostnað, meðal ann­ars vegna máls­höfðana gegn fyrr­ver­andi eig­anda fé­lags­ins og fé­laga í hans eigu.

„Þetta var rætt í öllum þeim hópum sem ég er partur af, í gær, og allir lýstu sig mjög hissa, allavega af skipun Sveins Andra, yfir þessu búi af því að búið er af þeirri stærðargráðu að það þarf að vera þannig að það sé óumdeildur skiptastjóri yfir þessu búi. Ég get ekki ímyndað mér að kröfuhafar séu mjög sáttir við það að þarna er maður sem verið er að draga fyrir dómstóla út af oftekinni þóknun. Það liggur fyrir að hann tekur 40.000 krónur plús vask fyrir tímann,“ segir Kristrún Elsa, og bætir við að almennt séu lögmenn að taka í kringum 25.000 krónur, auk virðisaukaskatts, á tímann fyrir vinnu við þrotabú. Kristrúnu og Sögu finnst því skrýtið að verið sé að skipa mann, sem hefur verið umdeildur vegna embættisgjarða sem skiptastjóri, yfir svona stóru búi.

Þá gagnrýna þær einnig að engar reglur sé um skipun skiptastjóra yfir þrotabúum og að einungis kröfuhafar geti haft eftirlit með skráningu tímafjölda. „Það gilda engar ákveðnar reglur um þetta og dómurunum er í sjálfvald sett hverja þeir skipa,“ segir Kristrún Elsa og bætir við að það halli gríðarlega á konur við skipun í stór þrotabú.  

Saga Ýrr segir einnig að spyrja megi þeirrar spurningar hvort heppilegt sé að lögmaður sé skiptastjóri yfir tveimur stórum þrotabúum samtímis, líkt og raunin sé í tilfelli Sveins Andra. „Er WOW air ekki af þeirri stærðargráðu að þú þarft að geta einbeitt þér að því?“ spyr Saga Ýrr.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert