„Þá skalf svolítið hraustlega“

Jarðskjálftahrina hefur staðið yfir í Öxarfirði, nærri Kópaskeri undanfarna viku …
Jarðskjálftahrina hefur staðið yfir í Öxarfirði, nærri Kópaskeri undanfarna viku og hafa íbúar ekki farið varhluta af skjálftanum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Arna Ósk Arnbjörnsdóttir, sölustjóri hjá Fjallalambi, hefur líkt og margir aðrir íbúar á Kópaskeri orðið vör við jarðskjálftahrinuna sem staðið hefur yfir í Öxarf­irði, skammt frá Kópaskeri frá því um síðustu helgi. Hún man líka vel eftir stóra skjálftanum 1976 og segist hafa verið lengi að jafna sig á honum.

Al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra hef­ur lýst yfir óvissu­stigi vegna jarðskjálfta­hrinunnar. Alls hafa mælst 989 jarðskjálftar á þessum slóðum sl. tvo sólarhringa og hafa átta þeirra verið yfir 3 að stærð. Sá stærsti mældist á miðvikudagskvöld og var hann 4,2 að stærð.

„Þá skalf svolítið hraustlega,“ segir Arna Ósk. „Ég sat bara við sjónvarpið þegar hann kom. Ég er drulluhrædd við þetta og greip í manninn minn. Síðan kom skömmu síðar annar minni,“ segir hún og kveður skjálftann hafa verið nokkuð snarpann. „Svo hugsar maður alltaf, er þessi stóri að koma?“ 

Arna Ósk Arnbjörnsdóttir, sölustjóri hjá Fjallalambi, hefur líkt og margir …
Arna Ósk Arnbjörnsdóttir, sölustjóri hjá Fjallalambi, hefur líkt og margir aðrir íbúar á Kópaskeri orðið vör við jarðskjálftahrinuna nú. Hún man líka vel eftir stóra skjálftanum 1976. Ljósmynd/Aðsend

Uggur í þeim sem upplifðu stóra skjálftann

Hún segist ekki hafa fundið sambærilega skjálftahrinu og nú frá því hún upplifði stóra skjálftann 1976 en hann var rúm sex stig. Hún tekur þó fram að hún hafi flutt burt 1986 og ekki flutt aftur á Kópasker fyrr 2013. „Þetta er þó búið að vera með því mesta sem við munum eftir í seinni tíð.“ Arna Ósk segir einhverja íbúar Kópaskers þó hafa orðið vel varir við skjálftann sem varð við Grímsey fyrir rúmu ári. 

Spurð hvort skjálftahrinan nú valdi íbúum áhyggjum segir Arna Ósk ugg vera í flestum þeim sem lentu í stóra skjálftanum og sem enn búa á svæðinu. Ekki sé þó um neina ofsahræðslu að ræða, þó vel sé fylgst með. „Það er t.d. ein hér sem var með mér í skólanum [þegar jarðskjálftinn 1976 reið yfir]. Húsið hennar stendur  þannig að þau finna mjög mikið fyrir þess og hún hefur sofið illa og orðið  mikið vör við skjálftana,“ segir hún.

Tveir Kópaskersbúar skoða eina rifuna sem myndaðist í bryggjunni í …
Tveir Kópaskersbúar skoða eina rifuna sem myndaðist í bryggjunni í skjálftanum 1976.

Hentist til á milli veggjanna

Líkt og áður sagði þá man Arna Ósk vel eftir stóra jarðskjálftanum sem varð á Kópaskeri 1976, en þá var hún átta ára gömul. „Ég bjó þá hérna fram  í sveit en skólinn var þá við Kópasker, ekki á Kópaskeri sjálfu þá.“ Hún var stödd inni á pínulitlu klósetti skólans ásamt annarri stúlku þegar skjálftinn hófst.

„Ég man að ég hentist á milli veggjanna og heyri í kennaranum í stofunni við hliðina á hrópa á nemendur: „Allir út, komið ykkur út!“ Arna Ósk gerði því fjölmargar tilraunir til að opna hurðina, en ekkert gekk á meðan að skjálftinn reið yfir. „Við komumst ekkert út fyrr en skjálftinn var búin og ég man að þegar ég labbaði út, þá stóð ég varla í lappirnar.“

Þegar skólabíllinn hélt síðan heim með börnin minnist hún þess að vegurinn var allur meira og minna krosssprunginn. „Við komumst ekki upp að einum bænum. Það var gjá á leiðinni og hún hafði sprungið það mikið að bílstjórinn treysti sér ekki til að fara yfir hana, þannig að strákurinn þurfti að hlaupa síðasta spölinn,“ rifjar Arna Ósk upp og bætir við að strákurinn hafi þó ekki átt um langan veg að fara.

Skjálftahrina hefur staðið yfir undanfarna viku.
Skjálftahrina hefur staðið yfir undanfarna viku. Kort/Veðurstofa Íslands

Af hverju koma Almannavarnir ekki?

„Svo þegar ég kom heim seinnipartinn og þá segir mamma að  ég hafi bara röflað: „Koma Almannavarnirnar ekki að hjálpa mér, koma Almannavarnirnar ekki að hjálpa okkur“. Síðan sofnaði ég bara.“

Heimili fjölskyldunnar slapp við skemmdir og ástandið var verst á Kópaskeri sjálfu, því skjálftinn átti upptök sín þar skammt frá.

Arna Ósk segist hins vegar hafa verið lengi að jafna sig á jarðskjálftanum. „Ég vil meina að ég hafi átt í erfiðleikum fram eftir aldri,“ segir hún og kveðst hafa hrokkið í kút við að heyra  brak eða vindhljóð. Þá hafi hún líka fundið fyrir verulegri veðurhræðslu, en enga áfallahjálp var að fá á þessum tíma.

Almannavarnir hafa hvatt íbú­a nú til að huga að inna­stokks­mun­um og gera aðrar viðeig­andi ráðstaf­an­ir vegna skjálftahrinunnar og segist Arna Ósk hafa brugðist við þessum með því að taka niður myndir, til að mynda þær sem hanga fyrir ofan rúm. „Ég er þó ekki búin að setja veggfestingar á hillur, sem maður á náttúrulega að gera,“ segir hún og kveðst vona þessu fari að linna

Skemmdir urðu á þessu íbúðarhúsi á Kópaskeri og fleirum í …
Skemmdir urðu á þessu íbúðarhúsi á Kópaskeri og fleirum í stóra skjálftanum.
mbl.is