Hugsanlega samið á morgun

Samningur er í sjónmáli á milli verkalýðsfélaganna fjögurra, LÍV og …
Samningur er í sjónmáli á milli verkalýðsfélaganna fjögurra, LÍV og Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Eggert

Kjaraviðræður Eflingar, VR, VLFA, VLFG, Framsýnar og Landssambands íslenskra verslunarmanna við Samtök atvinnulífsins hafa borið töluverðan árangur síðustu daga.

Samkvæmt heimildum mbl.is stendur launaliðurinn einn eftir og er verið að kasta tölum fram og til baka. Áfram verður fundað á morgun og hefst fundurinn í hádeginu. Sá fundur gæti orðið langur samkvæmt heimildum mbl.is. Heimildir mbl.is herma að farið sé að sjá til lands. Gert sé ráð fyrir að samningurinn sem er í kortunum verði til allt að fjögurra ára.

Frá því um miðja síðustu viku hefur verið nokkur skriður á viðræðunum. Menn héldu aftur af sér á meðan mesta óvissan ríkti um afdrif WOW air en þegar ljóst var hver þau yrðu gátu viðræðurnar haldið áfram. Síðan hefur verið mikill gangur á málum og samkvæmt heimildum mbl.is eru líkur á að samið verði upp úr helgi, ef ekki strax á morgun.

Verið að „hnýta lausa enda

Samkvæmt heimildum mbl.is hafa einhverjir aðilar að viðræðunum talað um að á morgun yrði bara „að sitja yfir þessu og klára þetta.“ Ef ekki verði af því ætti þetta að koma í höfn upp úr helgi. Nú sé verið að „hnýta lausa enda.

Verði ekki samið eða tekin ákvörðun um annað hefjast verkfallsaðgerðir á vegum Eflingar á mánudaginn 1. apríl hjá strætóbílstjórum hjá Almenningsvögnum Kynnisferða. Verkfallið verður á virkum dögum frá 1. apríl til og með 1. maí og verður þá daga enginn akstur frá klukkan 7-9 og 16-18.

Fyrirhuguð verkföll hjá VR og Eflingu Verkföll á hótelum og hjá rútufyrirtækjum á næstunni eru annars sem hér segir:

3. - 5. apríl (3 dag­ar)
9. - 11. apríl (3 dag­ar)
15. - 17. apríl (3 dag­ar)
23. - 25. apríl (3 dag­ar)
1. maí (þangað til verkfallinu er aflýst)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert