Taki tillit til gjörbreyttrar stöðu

mbl.is/Eggert

„Eftir þetta gjaldþrot WOW air sé ég ekki annað en að þessir aðilar aflýsi verkföllunum sem ráðgerð eru,“ segir Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri CenterHotels og formaður Félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, í samtali við mbl.is.

Tveggja daga verkfall hótelstarfsmanna á að óbreyttu að hefjast 3. apríl. Svo verður annað 9.-11. apríl og svo koll af kolli.

Hann bindur vonir við að samið verði og verkföllum aflýst. „Ég vil ekki trúa því að á meðan þúsundir eru að missa vinnuna hérlendis, eins og staðan er, að erlendum starfsmönnum hótelanna sé teflt fram í verkfall þrátt fyrir stöðuna,“ segir Kristófer. Hann segir það ganga gegn heilbrigðri skynsemi.

Kristófer Oliversson.
Kristófer Oliversson. Ljósmynd/Aðsend

„Aðferðafræðin sem lagt var upp með í vetur af samflotinu var hönnuð við aðrar aðstæður en nú eru uppi,“ segir Kristófer. „Þess vegna þurfa aðilar að taka tillit til gjörbreyttrar stöðu.“

„Við erum að fara á ranga braut sem samfélag ef við ráðumst á þessa 15 aðila í þessum aðgerðum,“ segir Kristófer. „Hótelrekendur hafa undanfarin fimm ár hækkað laun um 75% í evrum talið. Við höfum staðið okkur þokkalega og nú verða aðrir að taka við ef bæta á kjör þeirra lægst launuðu. Nú er ljóst að beita þarf öðrum aðgerðum en beinum launahækkunum ef jafna á kjörin,“ segir Kristófer.

„Ísland er þegar orðið dýrasta land í heimi og það skapar okkur mjög erfiða samkeppnisstöðu í framtíðinni,“ segir Kristófer.

Góður skriður hefur verið á samningaviðræðum í Karphúsinu síðustu daga, sagði hjá mbl.is fyrr í kvöld. Kristófer treystir samningsaðilum til að leiða málið til lykta en segir að auðvitað verði að fara að koma niðurstaða í málið bráðlega. Og hún verði að vera þannig úr garði gerð að fyrirtækin lifi af næstu ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert