„Tónninn er eðlilega þungur“

WOW air fór í skuldabréfaútboð í ágúst í fyrra upp …
WOW air fór í skuldabréfaútboð í ágúst í fyrra upp á 50 milljónir evra. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er eðlilegt að fólk vilji svör þegar svo stutt er frá því að útboði lýkur þar til félag fer í gjaldþrot,“ segir Guðmundur Ingvi Sigurðsson, lögmaður skuldabréfaeigenda í WOW air. Hann segir að kröfuhafar hyggist nú safna upplýsingum um útboðið, sem fór fram um miðjan ágúst á síðasta ári, rúmum sjö mánuðum áður en félagið fór í þrot.

Í samtali við mbl.is segist Guðmundur ekki hafa upplýsingar um hvað fór fram í kringum útboðið en að ljóst sé að nú verði leitað upplýsinga um það. Hann segir að til standi að afla gagna meðal annars hjá verðbréfafyrirtækinu Pareto Securities, sem sá um útboðið. Guðmundur segir ekki tímabært að fullyrða nokkuð um einstök atriði í málinu, að með þessu „sé ekkert verið að halda því fram að eitthvað misjafnt hafi átt sér stað.“

„Tónninn er eðlilega þungur. Enginn er ánægður með að glata svona miklum fjármunum,“ segir Guðmundur.

Næstu skref eru þau að kröfuhafar lýsa kröfum í búið en fresturinn til þess er í fjóra mánuði. „Eins og ég skil stöðuna, með öllum fyrirvörum, mun eflaust ekkert greiðast upp í almennar kröfur,“ segir Guðmundur. Vegna fjölda starfsmanna verði launakröfur og aðrar forgangskröfur gríðarlega háar. Þegar reynt hefur verið að mæta þeim kröfum er farið í skuldabréfaeigendur og aðra almenna kröfuhafa; leigusala, banka.

Skuldabréfaeigendur voru bæði íslenskir og erlendir, að meirihluta erlendir. Um er að ræða nokkra tugi aðila og segir Guðmundur að mikil breidd sé í hópnum og töluverður munur á upphæð krafnanna hjá mismunandi aðilum.

Guðmundur Ingvi Sigurðsson lögmaður skuldabréfaeigenda í WOW air
Guðmundur Ingvi Sigurðsson lögmaður skuldabréfaeigenda í WOW air mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert