Hafi verið óundirbúin undir fall WOW

Þotur Icelandair og WOW á Keflavíkurflugvelli.
Þotur Icelandair og WOW á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, gagnrýndu ríkisstjórnina báðar harðlega fyrir að hafa brugðist seint við gjaldþroti WOW air. Sögðu þær að ríkisstjórnin hefði haft langan tíma til að undirbúa sig. Þá vísuðu þær til fleiri mála þar sem ríkisstjórnin hefði verið á hælunum.

Þorgerður Katrín og Þórhildur Sunna voru gestir í útvarpsþættinum Þingvöllum á K100 í morgun.

Ríkisstjórnin ekki með plan B

„Það virðist vera að ríkisstjórnin hafi [...] verið búin að fara vel yfir það hvort rétt væri að stíga inn í, fara Air Berlin leiðina t.d., og mat það sem svo að það væri ekki rétt. Ég get tekið undir það að það er erfitt að stíga inn í og ákveða hvort það er rétt að stíga inn í nema að vera með mjög sterkan grunn fyrir því að ríkið komi inn með fjármagn. Það þarf að réttlæta það fyrir skattgreiðendum,“ sagði Þorgerður Katrín. „Það sem kemur á óvart er undirbúningsleysið. Ríkisstjórnin hefur barið sér á brjóst fyrir að hafa fylgst með málinu afar lengi. Í tíu mánuði hefur hún fylgst með málinu,“ sagði hún.

„Fyrst og síðast svíður mér að sjá að það eru engin svör gagnvart fólkinu. Það lá fyrir að ef WOW færi á hausinn yrðu a.m.k. 1400-1500 manns atvinnulausir. Hvaða skilaboð hafði ríkisstjórnin tilbúin handa því fólki, ekki síst á Suðurnesjum?“ sagði hún og vísaði til þess að stjórnarandstaðan hefði lagt fram tillögur við fjárlagagerð um styrkingu heilbrigðis- og menntainnviða á Suðurnesjum sem hefði verið hafnað af stjórnarflokkunum.

„Það virðist vera algengt hjá ríkisstjórninni að vera ekki tilbúin með plan B,“ sagði Þorgerður Katrín og nefndi einnig viðbrögðin við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í landsréttarmálinu. „Ríkisstjórnin gerði ekki ráð fyrir að tapa málinu og var tekin í bólinu,“ sagði hún.

Átti von á meiru frá ríkisstjórninni

Þórhildur Sunna sagðist hafa átt von á því að áætlun ríkisstjórnarinnar fæli í sér fleira en að ferja strandaglópa eftir gjaldþrotið. „Ég var alltaf að bíða eftir því að það yrði tilkynnt um það hvað þessi viðbragðsáætlun fæli í sér, annað en að koma fólki á sinn áfangastað. Það er eitthvað sem þarf að sjálfsögðu að gera, en það þarf ekki heila ríkisstjórn í það. Það er nóg að samgönguráðherra sinni því. Ríkisstjórnin talar um „viðbragðsáætlun“, en hana er ekki að sjá nema að þessu mjög takmarkaða leyti,“ sagði hún.

Þórhildur Sunna sagði að í landsréttarmálinu hefði ríkisstjórnin einnig dregið lappirnar. Svo virtist sem fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar hafi verið læst inni í tímaglasi áður en vendingar hafi orðið í landsréttarmálinu. Sagðist hún hafa fengið þær upplýsingar að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu hafi komið of seint. Ekki væri einu orði minnst á dóminn í fjármálaáætluninni.

Þórhildur Sunna sagði fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar úrelta. Atburðir liðinnar viku hjá WOW air breyttu forsendum hennar. „Samt minnir mig að fjármálaráðherra hafi talað um að þetta væri nú ekkert mál og að ekki þyrfti að breyta miklu í fjármálaáætlun. Þessi áætlun er algjörlega á skjön við raunveruleikann eins og hún er,“ sagði hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert