Býst við meiri röskun síðdegis

Færðin var heldur þung í morgun og ofan á það …
Færðin var heldur þung í morgun og ofan á það bættist verkfall bíl­stjóra Al­menn­ings­vagna Kynn­is­ferða. Farþegar hafa heilt yfir verið upplýstir um verkfallsaðgerðirnar og áhrif þeirra, að sögn upplýsingafulltrúa Strætó. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við fyrstu sýn virðist þetta ganga þokkalega, það eru tveir bílar stopp hérna fyrir utan hjá okkur í Mjóddinni,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó.

Tíu leiðir Strætó stöðvuðust klukk­an sjö og hefjast ekki að nýju fyrr en klukk­an 9 vegna verk­falls bíl­stjóra Al­menn­ings­vagna Kynn­is­ferða. Aðgerðirn­ar hafa áhrif á um 15 þúsund farþega.

Guðmundur hefur verið í Mjóddinni frá því snemma í morgun og þeir bílstjórar sem hann hefur náð tali af sögðu að allt hefði gengið vel fyrir sig og að farþegar hefðu yfirgefið vagnana án vandkvæða. Hann vissi ekki til þess að bílstjórar hygðust hittast á meðan stöðvun á akstri stendur yfir.

Aukið álag í þjónustuveri Strætó

Guðmundur segir að heilt yfir hafi farþegar verið upplýstir um verkfallsaðgerðirnar og áhrif þeirra. „Ég heyrði af þremur í farmiðasölunni sem voru ekki meðvitaðir en þeir gátu flestir nýtt sér aðrar leiðir í kerfinu.“ Þá hefur verið aukið álag í þjónustuveri Strætó það sem af er morgninum.

Við verkfallsaðgerðirnar er miðað við það að vagnarnir stoppi á fjölförnum stöðum, svo sem í Mjódd eða á Hlemmi, en ekki á stoppistöð á stórri umferðargötu, að sögn Guðmundar. „Þetta er algjör nýlunda, þetta hefur held ég aldrei verið gert áður og við fengum engar leiðbeiningar hvernig við áttum að gera þetta.“

Akstur hefst að nýju klukkan 9, seinni fasi verkfallsaðgerða í dag verður milli klukkan 16 og 18. Guðmundur segir að búast megi við að röskunin verði meiri þá, á háannatíma dagsins í umferðinni.

Verkfallið hefur áhrif á leiðir 12, 14, 15, 16, 17, 21, 24, 28, 35 og 36. Verk­fall þeirra hefst að nýju klukk­an 16:00 og stend­ur til 18:00.

Á vef Strætó má finna frekari upplýsingar um áhrif verkfallsaðgerðanna

Verkfallsaðgerðirnar standa út allan mánuðinn, náist ekki samningar. Fund­ur í kjaraviðræðum Sam­taka at­vinnu­lífs­ins við Efl­ingu, VR og sam­flot fjög­urra annarra verka­lýðsfé­laga hefur staðið yfir alla helg­ina og stóð yfir fram á ell­efta tím­ann í gær­kvöldi í hús­næði rík­is­sátta­semj­ara en var þá frestað fram til klukk­an hálf­tíu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert