Fagna hækkun frítekjumarks

Elísabet Brynjarsdóttir, forseti Stúdentaráðs.
Elísabet Brynjarsdóttir, forseti Stúdentaráðs. Ljósmynd/Stúdentaráð

Stúdentaráð Háskóla Íslands (SHÍ) segir það fagnaðarefni að í nýútgefnum úthlutunarreglum hafi frítekjumark námsmanna loks verið leiðrétt og taki nú mið af launaþróun síðustu ára. Frítekjumarkið hefur verið hækkað um 43% og er komið í 1.330.000 krónur.

Þetta kemur fram í ályktun SHÍ um úthlutunarreglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna 2019-2020.

Þar segir að SHÍ hafi barist fyrir því í nokkur ár að frítekjumarkið verði hækkað. Farið var í herferð í fyrra þar sem vakin var athygli á því að frítekjumarkið hafði staðið í stað frá 2014 þrátt fyrir að laun í landinu hefðu hækkað að meðaltali um 32%. 

Í ár fór SHÍ í aðra herferð með Landssamtökum íslenskra stúdenta til þess að vekja áfram athygli á stöðnun frítekjumarksins og lögðu áherslu á að um 70% lánþega LÍN færu yfir frítekjumarkið og skertist framfærslan þeirra því töluvert í samræmi við það.

Bent er á að annar þáttur herferðarinnar snúi að því að vekja athygli á gífurlegra lágri grunnframfærslu stúdenta. Hún hafi ekki verið hækkuð í nýjum úthlutunarreglum þrátt fyrir að í yfirlýsingu mennta- og menningarmálaráðuneytis kæmi fram að það ætti að bæta fjárhagsstöðu nemenda.

Stúdentaráð lýsir yfir áhyggjum af þessu í ljósi þess að lág grunnframfærsla mun að öllu óbreyttu fylgja stúdentum inn í nýtt lánasjóðskerfi, nema ráðherra bæti úr því í næstu úthlutunarreglum 2020-2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert