Gistinætur dragast saman um 1,5%

Gistinætur ferðamanna á gististöðum sem skráðir eru í gistináttagrunn Hagstofunnar voru um 567.000 í febrúar síðastliðnum, en þær voru um 576.000 í sama mánuði fyrra árs. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru 418.000 og gistinætur í íbúðagistingu, farfuglaheimilum, tjaldsvæðum o.þ.h. voru um 150.000.

Fjöldi gistinátta á skráðum gististöðum í febrúar dróst því saman um 1,5% milli ára. Þar af var 2,5% samdráttur á hótelum og gistiheimilum en 1,5% aukning á öðrum tegundum gististaða. Ekki eru birtar tölur um gistinætur í febrúar fyrir gistingu sem boðin er í gegnum vefsíður á borð við Airbnb að þessu sinni. Unnið er að því að birta þær með tölum um fjölda gistinátta í mars, þann 30. apríl að því er segir í frétt Hagstofu Íslands.

3% fækkun á hótelum

Gistinætur á hótelum í febrúar síðastliðnum voru 343.700, sem er 3% fækkun frá sama mánuði árið áður. Samdráttur var í fjölda gistinátta á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum, en fjölgun í öðrum landshlutum. Um 64% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu, eða 218.400.

Á tólf mánaða tímabili, frá mars 2018 til febrúar 2019, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 4.439.300, sem er 3% aukning miðað við sama tímabil árið áður.

Herbergjanýting í febrúar 2019 var 66,1%, sem er lækkun um 7,2 prósentustig frá febrúar 2018 þegar hún var 73,3%. Á sama tíma hefur framboð gistirýmis aukist um 7,0% mælt í fjölda herbergja. Nýtingin í febrúar var best á höfuðborgarsvæðinu, eða 83,6%.

Um 91% gistinátta á hótelum var skráð á erlenda ferðamenn, eða 313.400 sem er 2% færra en í febrúar 2018. Bretar voru með flestar gistinætur (104.600), þar á eftir koma Bandaríkjamenn (67.500) og Kínverjar (29.600) en gistinætur Íslendinga voru 30.300.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert