Vilja afturkalla eftirlitsheimild TR

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins.
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins. mbl.is/Hari

Guðmundur Ingi Kristinsson og Inga Sæland úr þingflokki Flokks fólksins hafa lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar sem felur í sér að Tryggingastofnun ríkisins (TR) verði ekki lengur heimilt að neita bótaþega um bætur ef maki hans neitar að samþykkja upplýsingaöflun um tekjur hans.

Guðmundur Ingi segir það vera „gersamlega óþolandi og niðurlægjandi fyrir friðhelgi einkalífs fólks að stjórnvöld skuli geta vaðið hömlulaust í slíkar upplýsingar með það í huga að skerða stjórnarskrárvarin réttindi borgaranna til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis og örbirgðar“.

Fram kemur á vef TR að tekjur maka hafi almennt ekki áhrif á lífeyri frá TR, þ.e. atvinnutekjur eða tekjur frá lífeyrissjóði. Öðru máli gegnir hins vegar um fjármagnstekjur, sem eru sameiginlegar með hjónum og sambúðarfólki.

Óþarfa íþyngjandi eftirlitsheimildir

Guðmundur Ingi segir í samtali við mbl.is að efni frumvarpsins muni ekki hafa áhrif á það sem lúti að fjármagnstekjunum og því sé frumvarpið bara að taka í burtu óþarfa íþyngjandi ákvæði um að TR geti skyldað maka til þess að gefa upp atvinnutekjur sínar og að neitun maka geti haft áhrif á bótarétts fólks.

Hann segir að þessi ákvæði hafi verið sett inn í lögin með miklum hraða á sínum tíma, án þess að þingmenn hafi endilega áttað sig á því að með þessu væri verið að brjóta á réttindum fólks.

Þingmaðurinn segist óviss um að þetta standist lög um persónuvernd og segir núverandi fyrirkomulag jafnframt ganga gegn meginreglu í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, um að virðing skuli borin fyrir meðfæddri göfgi, sjálfræði einstaklinga, þar með töldu frelsi til að taka eigin ákvarðanir, og sjálfstæði þeirra.

Inga Sæland og Guðmundur Ingi leggja frumvarpið fram í sameiningu.
Inga Sæland og Guðmundur Ingi leggja frumvarpið fram í sameiningu. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert