Frjósemi aldrei verið minni

Árið 2018 var frjósemi íslenskra kvenna 1,707 börn á ævi …
Árið 2018 var frjósemi íslenskra kvenna 1,707 börn á ævi hverrar konu og hefur hún aldrei verið lægri frá því að mælingar hófust árið 1853. mbl.is/Árni Sæberg

Frjósemi kvenna á Íslandi í fyrra var 1,707 börn á ævi hverrar konu og hefur hún aldrei verið lægri frá því að mælingar hófust árið 1853. Þá fer meðalaldur frumbyrja hækkandi og er nú 28,2 ár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofunni.

Árið 2018 fæddust 4.228 börn á Íslandi, sem er fjölgun frá árinu 2017 þegar 4.071 barn fæddist. Alls fæddust 2.242 drengir og 1.986 stúlkur, en það jafngildir 1.129 drengjum á móti hverjum 1.000 stúlkum.

Þrátt fyrir að fleiri börn fæddust í fyrra en árið á undan er frjósemi minni, eða 1,707. Helsti mælikvarði á frjósemi er fjöldi lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu. Yfirleitt er miðað við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn til að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma litið. Árið 2017 var frjósemi 1,710 en það er næstlægsta frjósemi sem mælst hefur hér á landi.

Miðað er við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 …
Miðað er við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn til að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma litið. Línurit/Hagstofa Íslands

Meðalaldur mæðra hækkar

Meðalaldur mæðra hefur hækkað jafnt og þétt síðustu áratugi og eignast konur nú sitt fyrsta barn að jafnaði síðar á ævinni en áður. Frá byrjun sjöunda áratugarins og fram yfir 1980 var meðalaldur frumbyrja undir 22 árum en eftir miðjan níunda áratuginn hefur meðalaldur farið hækkandi og var 28,2 ár í fyrra.

Algengasti barneignaaldurinn er 25–29 ára. Á þessu aldursbili fæddust 109 börn á hverjar 1.000 konur árið 2018. Fæðingartíðni mæðra undir tvítugu var í fyrra 5,3 börn á hverjar 1.000 konur. Það er afar lágt í samanburði við tímabilið 1961-1965 þegar hún fór hæst, en þá fæddust 84 börn á hverjar 1.000 konur undir tvítugu.

Frá byrjun sjöunda áratugarins og fram yfir 1980 var meðalaldur …
Frá byrjun sjöunda áratugarins og fram yfir 1980 var meðalaldur frumbyrja undir 22 árum en eftir miðjan níunda áratuginn hefur meðalaldur farið hækkandi og var 28,2 ár í fyrra. Súlurit/Hagstofa Íslands

29,5% barna fæðist innan hjónabands

Tæplega þriðjungur barna, eða 29,5%, sem fæddist á Íslandi árið 2018 voru börn foreldra í hjónabandi. Frá 1961 til 2018 hefur hlutfall þeirra barna sem fæddust innan hjónabands lækkað úr 74,3% niður í 29,5%. Hlutfall þeirra barna sem fæddust innan sambúðar hækkaði úr 13,4% í 56,4% á sama tíma. Hlutfall barna sem fæðast utan sambúðar eða hjónabands er því nokkuð svipað og það var á árunum 1961-1965. Á þeim árum fæddust 12,4% allra barna utan sambúðar eða hjónabands en 14% árið 2018.

mbl.is

Bloggað um fréttina