Leit að göngumanni afturkölluð

Björgunarsveitir leituðu mannsins.
Björgunarsveitir leituðu mannsins. mbl.is/Ómar

Leit að göngumanni á hálendi sunnan Eyjafjarðar hefur verið afturkölluð. Björgunarsveitir náðu símasambandi við manninn í morgun. Hann afþakkaði aðstoð en engu að síður fara nokkrir björgunarsveitarmenn til hans til að taka stöðuna á honum. 

Aðstand­andi manns­ins hafði sam­band í nótt og sagði mann­inn í vand­ræðum, væri lík­lega bú­inn að tapa hluta af búnaði sín­um og orðinn þreytt­ur og slæpt­ur.

„Það voru vöflur á honum varðandi aðstoð. Við ætlum að senda menn til hans til að athuga betur með hann,“ segir Jónas Guðmundsson hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Samkvæmt aðstandanda mannsins sem er franskur missti hann búnaðinn og snjóþrúgurnar eru brotnar. Í slíkum aðstæðum er ekkert vit að halda áfram, segir Jónas. 

Hann bendir á að gjarnan þegar útlendingar eru komnir í þessa stöðu verða þeir hræddir og afþakka aðstoð af ótta við að þurfa að bera allan kostnað við björgunina. Þess vegna verður gengið úr skugga um að hann sé heill á húfi. Hann er 10 km sunnan Eyjafjarðar í um 1.000 metra hæð.

Útlendingar vilja ganga yfir hálendið allan ársins hring

Maðurinn hyggst ganga þvert yfir hálendið. Hann skildi ekki eftir ferðaáætlun hjá björgunarsveitum en er með neyðarsendi á sér. Þessi gönguleið er vinsæl hjá útlendingum en Íslendingar ganga þessa leið einnig. Hins vegar leggja útlendingar í þessa för á öllum árstímum og skilja ekki alltaf eftir ferðaáætlun á meðan heimamenn fara frekar þegar sól hækkar á lofti yfir sumartímann.  

„Það líður ekki sú vika að við fáum ekki inn á borð til okkar ferðaáætlun þvert yfir hálendið. Flestir leggja héðan upp og fara alla leið í Skógarfjöru. Flestir skilja eftir ferðaáætlun sem hjálpar mikið ef þeir þurfa aðstoð. Sumir snúa við af sjálfsdáðum en aðrir klára þetta,“ segir Jónas. 

Hann bendir á að björgunarsveitin hafi lagt það til að þeir sem fara í gegnum Vatnajökulsþjóðgarð verði skyldugir til að skilja eftir ferðaáætlun. Það myndi einfalda og auðvelda starf björgunarsveita landsins til muna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert