„Þetta eru ólíkindatól“

Hljómsveitin Hatari.
Hljómsveitin Hatari. mbl.is/Eggert

„Þetta eru ólíkindatól,“ segir Felix Bergsson, fararstjóri íslenska Eurovision-hópsins, spurður um fullyrðingu hljómsveitarinnar Hatara um að hún sé hætt við þátttöku í Eurovision-keppninni í Tel Aviv í Ísrael. Frétt þess efnis birtist í gær 1. apríl. Enn sem komið er hefur tilkynning ekki borist frá sveitinni um að um aprílgabb sé að ræða og ekki næst í liðsmenn sveitarinnar.

Felix hafði ekki hugmynd um athæfið og frétti af því í gærkvöldi þegar blaðamenn höfðu samband. Hann gengur út frá því að um aprílgabb sé að ræða því honum hefur ekki verið greint frá breyttri stöðu.  

Unnið er að því hörðum höndum að skipuleggja atriði Hatara í söngvakeppninni sem haldin er í næsta mánuði. Til að mynda er grafíkin klár.  

„Allt verður stærra en með svipuðu sniði,“ segir Felix um flutninginn í Ísrael. Ný leikmynd verður smíðuð hér heima og verður flutt út. „Það er miklu ódýrara en að smíða hana úti. Við erum að skoða hvað við höfum efni á að gera í sprengjum og eldi á sviði,” segir Felix. 

Spurður um kostnað segist hann ekki geta svarað því eins og stendur. Það liggur þó fyrir að það verður kostnaðarsamt að flytja atriðið í Ísrael. 

Felix Bergsson er fararstjóri íslenska Eurovision-hópsins.
Felix Bergsson er fararstjóri íslenska Eurovision-hópsins. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert