Fundi samflots iðnaðarmanna frestað

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands. mbl.is/Styrmir Kári

Fundi samflots iðnaðarmanna og Samtaka atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara hefur verið frestað til morguns, en til stóð að hann færi fram kl. 14 í dag. Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður Rafiðnaðarsambandsins yfirgaf Karphúsið núna á þriðja tímanum.

Hann segir við mbl.is að það sé alveg „nóg að gera“ hjá ríkissáttasemjara og SA við að klára samningana við verslunarmenn og aðildarfélög Starfsgreinasambandsins, sem á að undirrita núna síðdegis. Því hafi fundinum verið frestað.

„Hann er kl. 14 á morgun,“ segir Kristján Þórður. Aðspurður segir hann iðnaðarmenn ekki hafa fengið að sjá þann kjarasamning sem er verið að leggja lokahönd á núna í þessum skrifuðu orðum og verður undirritaður innan skamms.

Hann segir þó að iðnaðarmenn hafi fengið „aðeins kynningu á upplegginu fyrir nokkrum dögum síðan“ en að hann viti ekki hvernig vinnunni hafi fleytt allra síðustu daga.

Spurður hvort honum hafi litist eitthvað á það upplegg sem kynnt var iðnaðarmönnum, segist Kristján Þórður ekkert ætla að tjá sig um það.

Samflot iðnaðarmanna samanstendur af Rafiðnaðarsam­bandi Íslands, Samiðn, Fé­lagi bóka­gerðarmanna, Mat­vís, Fé­lagi hársnyrti­sveina og VM, sem er fé­lag vél­stjóra og málm­tækni­manna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert