Fjórar stoðir lífskjarasamningsins

Lífskjarasamningurinn byggir í grunninn á fjórum stoðum. Í fyrsta lagi hærri launum, í öðru lagi auknum sveigjanleika til að stytta vinnuviku, í þriðja lagi lægri sköttum og breytingu á álagningu á launþega og í fjórða og síðasta lagi lægri vöxtum til frambúðar sem lífskjarasamningurinn á að byggja grunn fyrir. Þetta kom fram í kynningu aðila vinnumarkaðarins á samningnum nú í Ráðherrabústaðnum í kvöld.

Samtök atvinnulífsins skrifuðu undir kjarasamning við Eflingu, VR og samflotsfélög þeirra nú í kvöld og kynntu stjórnvöld í kjölfarið aðgerðir sínar sem eiga að koma til að brúa bilið svo hægt væri að landa samningum. Kom fram í máli ríkisstjórnarinnar að aðgerðirnar byggðu á sömu hugmyndum og kynntar voru fyrr í vetur, en að bætt væri við skattalækkanir.

20 milljarða skattalækkun og lengra fæðingarorlof

Kom meðal annars fram í máli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, að nýja lægra þrepið væri fært enn neðar og að frumvarp þar að lútandi kæmi næsta haust. Sagði Bjarni að heildarumfang aðgerðanna væri 20 milljarðar, eða sem nemur 10% af öllum tekjuskatti sem ríkið innheimtir.

Þá sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að lengja ætti fæðingarorlof í 12 mánuði og hækka barnabætur samhliða því að hækka skerðingarmörk barnabóta.

Kjöraðstæður fyrir varanlega lækkun vaxta

Í máli forsvarsmanna stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins kom meðal annars fram að lífskjarasamningurinn væri hugsaður til að auka efnahagslegan stöðugleika og fyrst og fremst beint að lágtekjuhópum í samfélaginu. Með aðgerðunum væru skapaðar kjöraðstæður fyrir varanlega lækkun vaxta, en fyrirvari er í samningnum um að Seðlabankinn lækki stýrivexti sína.

Launaauki í takt við hagvöxt

Þá var kynntur til sögunnar svokallaður hagvaxtarauki, en það er aukagreiðsla sem kæmi til út frá undirliggjandi gangi hagkerfisins þannig að tryggt væri að betri gangur í hagkerfinu skili sér til allra, líka þeirra sem eru á taxtalaunum. Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA, sagði í kynningu sinni að með þessu væri tryggt með afgerandi hætti að það fengist hlutdeild þegar betur árar í íslensku efnahagslífi.

Hækkunin minnst í upphafi

Fór hann jafnframt yfir hvernig krónutöluhækkanir verða samkvæmt samningnum. Þannig eiga taxtalaun að hækka um 17 þúsund krónur árið 2019, auk 26 þúsund króna eingreiðslu. Árin 2020 og 2021 er hækkunin 24 þúsund krónur hvort ár og árið 2022 25 þúsund krónur. Fyrir þá sem ekki eru á taxtalaunum er hækkunin 18 þúsund krónur árið 2020, 15.750 krónur árið 2021 og 17.250 krónur árið 2022. Sagði Vilhjálmur að samið væri í krónutölum en ekki prósentum þar sem prósentuhækkun væri ávísun á aukið ójafnvægi.

Hagvaxtaraukinn hæst farið í 13 þúsund

Hagvaxtaraukinn mun skila 3 þúsund króna auka hækkun ef hagvöxtur mælist yfir 1%, 5.500 króna hækkun ef hagvöxtur er 1,5%, 8 þúsund króna hækkun ef vöxturinn er 2%, 10.500 krónu hækkun ef hagvöxturinn er 2,5% og 13 þúsund króna hækkun ef hann er 3% eða hærri. Fyrir þá sem ekki eru á taxtalaunum nemur hækkunin 75% af fyrrgreindri krónutölu í hagvaxtarauka.

Þá er í samningnum launaþróunartrygging sem er fyrirvari um að laun í opinbera geiranum hækki ekki umfram laun í einkageiranum.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynntu meðal annars …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynntu meðal annars aðgerðir ríkisstjórnarinnar í kvöld. mbl.is/​Hari
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert