„Hindrun vaxtalækkunar horfin“

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir í samtali við mbl.is að óvissuþátturinn …
Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir í samtali við mbl.is að óvissuþátturinn sem stóð í veg fyrir vaxtalækkun sé horfin með gerð hóflegra kjarasamninga. Hann segir hins vegar endurskoðunarákvæði kjarasamningsins óheppilegt. mbl.is/Hari

Endurskoðunarákvæði í kjarasamningum um vaxtastig eru óheppilegt og að hluta byggt á misskilningi, segir Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri, í samtali við mbl.is.

Hann segir jafnframt að óvissa sem tengdist kjarasamningum hafi komið í veg fyrir að Seðlabankinn hafi tekið til skoðunar vaxtalækkun. Þá getur endurskoðunarákvæðið truflað og jafnvel skert svigrúm til lækkun vaxta.

„Við vorum komin á þann stað áður að það var farið að hægja á í þjóðarbúinu og svo verða áföll. Því var margt sem mælti með því að lækka raunvexti Seðlabankans til þess að minnka þessi áföll, en það var hins vegar þessi óvissa vegna kjarasamninganna sem hindruðu það. Nú er hún horfin,“ segir hann.

Svigrúm til lækkana

Már segir kjarasamningin sem undirritaður var nýverið vera mjög jákvæða niðurstöðu. „Nú liggur fyrir að það eru ekki launahækkanir í ár sem kollvarpa einhverjum stöðugleika. Hvorki efnahagslega né verðstöðugleika. Á heildina litið er samningurinn miklu hófstilltari en mátti óttast.“

„Þetta hefur það í för með sér að verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur lækkað mjög mikið sem bendir til þess að verðbólguvæntingar almennt hafa minnkað. Það skapar svigrúm fyrir okkur að lækka vexti,“ útskýrir seðlabankastjóri.

Á grundvelli þessa þátta segist Már ekki gera athugasemd við það að aðilar vinnumarkaðarins segi í almennum orðum að þeir hafi væntingar um það að vexti lækki núna á næstunni.

Óheppilegt orðalag

Hann segir þó óheppilegt að aðilar vinnumarkaðarins hafi endurskoðunarákvæði í samningnum er tengist vaxtastigi í september árið 2020 og að þetta ákvæði sé byggt á misskilningi, þar sem vaxtaákvarðanir Seðlabankans séu fyrst og fremst stýritæki og að stundum sé þörf á að hækka vexti og stundum lækka.

„Ef við tækjum þessu ákvæði bókstaflega gæti það jafnvel skert svigrúm okkar til vaxtalækkana í núinu vegna þess að seðlabankar lækka vexti þegar kreppir að og hægir á hagvexti, af því að þeir vita að þeir geta hækkað vexti þegar aðstæður breytast. Það veit enginn hvernig ástandið verður í september 2020,“ útskýrir Már.

Kjarasamningar binda ekki hendur SÍ

Spurður um orð Gylfa Zoega, prófessor í hagfræði og nefndarmann í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, og Gylfa Magnússonar, formanns bankaráðs bankans, um að fyrirvarar í kjarasamningum um vaxtastig hafi óæskileg áhrif á starf Seðlabankans, svarar Már: „Það getur engin komið hér inn og haft áhrif á það hvernig vöxtum er breytt.“

Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs SÍ, hefur sagt ýmis ákvæði samningsins …
Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs SÍ, hefur sagt ýmis ákvæði samningsins skrítin. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hann segist ekki leggja neitt mat á það hvort slík ákvæði eru til þess fallin að draga úr sjálfstæði Seðlabankans, en tekur fram að bankinn starfi á grundvelli laga.

„En þetta getur truflað og truflað með hætti sem er ekki heppilegur fyrir einn eða neinn,“ bætir hann við.

Már segir hins vegar mun heppilegra ef fyrrivarar í kjarasamningum yrðu bundnir við verðbólgu, enda sé það einmitt hlutverk Seðlabankans að takast á við verðbólguna. „Þetta hefur aldrei verið gert með þessum hætti og sérstaklega ekki svona langt fram í tíma.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert