„Ísland er komið á kortið“

Kolbeinn Óttarsson Proppé á fundi atvinnuveganefndar þar sem staða íslensku ...
Kolbeinn Óttarsson Proppé á fundi atvinnuveganefndar þar sem staða íslensku ferðaþjónustunnar eftir fall WOW air var rædd. mbl.is/Eggert

„Nú er búið að koma Íslandi á kortið sem ferðamannastað,“ sagði Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, á opnum fundi í atvinnuveganefnd þar sem staða ferðaþjónustunnar í kjölfar falls WOW air var til umræðu. Hann sagði að ekki þyrfti að fara í átak til að vekja áhuga fólks á Íslandi.

Hann sagðist telja að hlutverk Isavia, við að laða flugfélög að Keflavíkurflugvelli, væri stærra núna í kjölfar falls WOW air heldur en þegar farið var í Inspired by Iceland átakið þegar Eyjafjallajökull gaus árið 2010.

„Er ekki átakið núna meira í að auka sætaframboð, því það þýðir ekkert að auka áhuga fólks á að koma til Íslands ef það kemst ekki?“ spurði Kolbeinn en Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sat fyrir svörum á fundinum.

Frá fundinum.
Frá fundinum. mbl.is/Eggert

Áfangastaðurinn Ísland hefur ekkert breyst

„Ég tek algjörlega undir þetta,“ sagði Þórdís og bætti við að fyrsta viðbragð hefði verið að tala við Isavia og spyrja hver staðan væri. Hún sagði að við ættum að einblína á þá hópa sem vilja komast til Íslands:

„Þetta er allt önnur staða en var árið 2010. Ísland er á kortinu og eftirspurnin er klárlega til staðar. Við megum ekki gleyma því að fólk hefur enn mikinn áhuga á að koma til landsins og áfangastaðurinn Ísland hefur ekkert breyst. Eina sem hefur breyst er að fólk þarf að finna sér aðrar leiðir til að koma og því þurfum við að einblína á það,“ sagði ráðherra.

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að það væri mjög mikilvægt að erfiðleikarnir vegna falls WOW air yrðu eingöngu tímabundnir. Erfiðleikarnir muni hafa meiri áhrif á smærri fyrirtæki á landbyggðinni. Hún spurði hvernig ráðherra sæi fyrir sér að gefa í varðandi dreifingu ferðamanna um landið.

Sjáum breytingar á einni viku

Þórdís sagði að flugþróunarsjóður væri til þess að reyna að ýta flugi út á land. Hún er mjög ánægð með að hollenska flugfélagið Transavia ætli að fljúga einu sinni í viku til Akureyrar í sumar, eins og greint var frá í byrjun vikunnar.

„Varðandi Isavia eru þau í sífelldu markaðs- og sölustarfi en það er eitthvað sem skilar sér frekar til lengri tíma. Þau hafa samt átt mörg samtöl við mörg flugfélög sem hafa skilað jákvæðri niðurstöðu. Á aðeins viku erum við strax farin að sjá einhverjar breytingar,“ sagði Þórdís. Hún bætti við að það væri spurning hversu hratt flugfélög breyttu áætlunum sínum þegar flotinn væri skipulagður fyrir sumarið.

„Hverju var hægt að bjarga?“

Þórdís kom inn í upphafsávarpi sínu að stjórnvöld töldu að það kæmi ekki til greina að ríkið myndi sjá um rekstur flugfélags að einhverju eða öllu leyti. Ólafur Ísleifsson, þingmaður miðflokksins spurði hvort stjórnvöld hefðu getað liðkað fyrir í aðdraganda falls WOW þannig að það hefði mátt komast hjá verstu afleiðingunum.

„Frá árinu 2017 hafa 30 flugfélög farið á hliðina en í algjörum undantekningartilfellum hafa ríki stigið inn í. Við erum mjög, mjög lítið hagkerfi,“ sagði Þórdís. Hún ítrekaði að allar leiðir hefðu verið skoðaðar, hver áhættan væri og hverju aðkoma stjórnvalda myndi breyta:

Hverju var hægt að bjarga? Hver var raunveruleg staða? Hvaða áhættu eru stjórnmálamenn að taka fyrir hönd skattgreiðanda? Þegar öll gögn sýna að það sé mjög langsótt og líklega ekki farsælt þá þar með gerirðu það ekki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina