Líta nýja nálgun jákvæðum augum

Aðspurð hvort sú nýja nálgun sem beitt var við kjarasamningana …
Aðspurð hvort sú nýja nálgun sem beitt var við kjarasamningana sem undirritaðir voru í gær sé góð segir Sonja að BSRB líti hana mjög jákvæðum augum. mbl.is/​Hari

„Það hefur verið ágætistaktur í okkar samningaviðræðum en þunginn mun klárlega aukast núna. Sá sem fer fyrstur slær tóninn fyrir þá sem á eftir koma og áherslur BSRB ríma vel við niðurstöður þeirra kjarasamninga sem undirritaðir voru í gær,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, í samtali við mbl.is.

„Okkar kröfur hafa verið á þá leið að verja þá sem hafa minnst á milli handanna, bæði með launabreytingum og stuðningi stjórnvalda. Við tókum þátt í þessu samtali við stjórnvöld, auðvitað byggir þetta á kröfugerð aðildarfélaga ASÍ en þetta rímar vel við okkar áherslur.“

„Atriði sem við fögnum sérstaklega eru aukin stofnframlög svo við getum byggt frekari íbúðir í gegnum Bjarg, íbúðafélag ASÍ og BSRB. Við erum líka ánægð að sjá að draga eigi úr skerðingarmörkum á barnabótum, það er mjög jákvætt skref, og svo hefur lenging fæðingarorlofs auðvitað verið baráttumál til lengri tíma,“ segir Sonja Ýr. Þá hafi stytting vinnuvikunnar verið baráttumál BSRB til lengri tíma.

Komið í veg fyrir höfrungahlaup

Aðspurð hvort sú nýja nálgun sem beitt var við kjarasamningana sem undirritaðir voru í gær verði fordæmisgefandi segir Sonja að BSRB líti hana mjög jákvæðum augum. „En auðvitað eigum við eftir að sjá hvernig reynslan af þessu verður.“

„Þessi nýja leið er mjög áhugaverð að því leytinu að hingað til hafa nánast allir samið um það að ef einhver annar sem kemur síðar í kjarasamningsgerðinni semur um meiri launahækkanir en áður hefur verið gert, þá losni samningar ef þeir hafi áhrif á hina og þá byrjar þetta höfrungahlaup. Það eru tímamót í þessu að horfa frekar til annarra atriða eins og hagvaxtar og launaþróunartryggingar sem tryggir tekjulægsta fólkinu sömu bætur ef það verður launaskrið á efri meðaltekjum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert