Nokkrar leiðir til að stytta vinnutíma

Stytting vinnutíma er meðal þess sem tilgreint er í lífskjarasamningnum, en samkvæmt þeim tillögum sem Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, kynnti á kynningarfundi í Ráðherrabústaðnum í kvöld gæti þetta leitt til allt að 53 mínútna styttingu á venjulegum vinnudegi, að vinnuviku lyki á hádegi á föstudegi eða að annan hvern föstudag væri frí. Talaði hann þar um að vinnuvikan væri stytt í 36 klukkustundir.

Flosi sagði í kynningu sinni að starfsfólk og atvinnurekendur þyrftu að koma sér saman um breytt fyrirkomulag eða að greidd yrðu atkvæði á einstökum vinnustöðum um hvernig ætti að útfæra styttinguna.

Í kynningu Flosa var miðað við samning SGS og Samtaka atvinnulífsins, en Flosi tók fram að einhver mismunur væri á styttingunni milli félaga sem kæmu að samningaborðinu, en þó væri um góða styttingu að ræða hjá öllum.

Nefndi Flosi fimm möguleika í þessu sambandi. Í fyrsta lagi að halda óbreyttu fyrirkomulagi. Þá væri hægt að stytta vinnudaginn um 53 mínútur. Sagði hann þetta meðal annars koma vel fyrir þá sem vildu hafa meiri frítíma eftir vinnu, eða þá sem þyrftu að standa í frístundaskutli. Þriðji möguleikinn væri að ljúka störfum á hádegi á föstudegi, en Flosi sagði það framtíðarsýn sína og margra annarra að vinnumarkaðurinn ætti að þróast í þá átt að lengja helgina á þennan hátt. Í fjórða lagi væri svo hægt að taka frí annan hvern föstudag, en það passaði meðal annars fólki sem væri með skyldur aðra hverja helgi, t.d. hjá fólki sem deildi forræði barna sinna.

Að lokum sagði Flosi að í einhverjum tilfellum gæti komið til þess að lengja hvíldartíma innan vinnudags, t.d. í framleiðslustörfum.

Flosi Eiríksson.
Flosi Eiríksson. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert