Ráðist á rót vandans með samningunum

Ragnar Þór ásamt Vilhjálmi Birgissyni, formanni VLFA, í Ráðherrabústaðnum í …
Ragnar Þór ásamt Vilhjálmi Birgissyni, formanni VLFA, í Ráðherrabústaðnum í kvöld. mbl.is/​Hari

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að með nýjum kjarasamningum í samvinnu við ríkisstjórn Íslands sé verið að ráðast á rót vandans: kostnaðinn við að lifa. „Þetta er fjölbreytt og við erum ekki bara að einblína á launaliðinn,“ sagði Ragnar Þór í Ráðherrabústaðnum að kynningu á samningunum lokinni.

„Við erum að setja saman þætti, úr mörgum ólíkum áttum, sem samanstanda af því að auka ráðstöfunartekjur fólks, með krónutöluhækkunum, í gegnum barnabótakerfið, með lækkun vaxta, lækkun húsnæðisverðs. Svo er það þessi möguleiki fyrir fólkið okkar að fá ávinning af auknum hagvexti.“

Um er að ræða fyrstu kjarasamninga nýrrar forystu verkalýðshreyfingarinnar og telur Ragnar Þór þau geta verið ánægð með árangurinn. En að hvaða leyti var nálgun þeirra ólík þeirri gömlu?

„Fyrst og fremst erum við að ráðast í beinar krónutöluhækkanir og sömuleiðis erum við að fara í kerfisbreytingar til að bæta lífskjör almennings. Þar liggur raunveruleg samkeppnishæfni landsins, það er að bjóða upp á samkeppnishæf lífskjör, lægri vexti, heilbrigðara húsnæðislánaform, lægri húsnæðiskostnað og meira búsetuöryggi.“

„Það voru margir sigrar. Auðvitað vill maður alltaf meira en þetta er bara byrjunin. Við munum fylgja þessu mjög vel eftir.“

Aðkoma ríkisstjórnarinnar lykilatriði

Aðkoma stjórnvalda að kjarasamningunum er talsvert meiri en áður hefur sést og segir Ragnar Þór að vilji ríkisstjórnarinnar til að bæta lífskjör almennings hafi skipt sköpum. „Ríkisstjórnin sýndi mikinn vilja til að taka þátt í þessu verkefni með okkur og skapa heilbrigðara samfélag.“

„Hún hefur þennan djúpa skilning á því hvaða ávinning þetta getur haft fyrir samfélagið og lífskjör almennt til lengri og skemmri tíma. Hún tók þátt í þessu með okkur og það var í rauninni lykillinn að þessu.“

Enn eigi eftir að kynna betur ýmis úrræði stjórnvalda, svo sem úrræði vegna fyrstu húsnæðiskaupa sem kynnt verða á föstudag, auk þess sem unnið sé að fjármögnun nýs húsnæðisfélags. „Útfærslur á fjármögnun nýs húsnæðisfélags, sem heitir Blær, eru á lokametrunum. Það verður gríðarleg innspýting í byggingu á hagkvæmu húsnæði sem ekki hefur sést áður.“

„Þetta er rétt að byrja. Þetta er fyrsti samningur nýrrar forystu sem ég held við getum verið sátt með, sérstaklega í ljósi gríðarlega erfiðra aðstæðna sem sköpuðust í miðjum viðræðum. Við erum hvergi nærri hætt,“ sagði Ragnar Þór að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert