Sólveig Anna: „Vopnahléssamningar“

Sólveig Anna Jónsdóttir og Katrín Jakobsdóttir faðmast í Ráðherrabústaðnum.
Sólveig Anna Jónsdóttir og Katrín Jakobsdóttir faðmast í Ráðherrabústaðnum. mbl.is/​Hari

„Það er bara góð spurning, ég er enn að vinna mig í gegnum það allt saman, ég auðvitað fagna því að við séum loksins búin að undirrita kjarasamninga eftir þessa ótrúlega löngu og ströngu törn. Ég lít svo á að þetta séu vopnahléssamningar, í þessari eilífu baráttu á milli atvinnurekenda annars vegar og þeirra sem að komast af við að selja aðgang að vinnuaflinu sínu.“

Þetta sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar við blaðamann mbl.is í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu, er hún var spurð hvernig henni væri innanbrjósts eftir að kjarasamningar náðust. Hún þakkar sínum kæru félögum í Eflingu, í samninganefndinni, sem hún segir hafa barist af mikilli þrautseigju í gegnum þetta allt saman.

„Ég vil líka fá að senda kærar kveðjur til félagsmanna Eflingar sem tóku þátt í verkfallsaðgerðum, sem auðvitað á endanum skiluðu okkur að samningsborðinu,“ segir Sólveig Anna.

Sólveig Anna segir að um vopnahléssamninga sé að ræða. Hún …
Sólveig Anna segir að um vopnahléssamninga sé að ræða. Hún er svekkt með launaliðinn en ánægð með ýmislegt annað. mbl.is/Hari

72% af upphaflegum kröfum um launahækkanir

Taxtalaun hækka um 90 þúsund krónur á samningstímanum, næstu þremur árum og átta mánuðum. Sólveig Anna segir það vera „viss vonbrigði“.

„Þetta eru svona 72% af því sem við fórum fram með, og þá vorum við að horfa til þess að það myndi nást á þremur árum. Auðvitað eru þetta viss vonbrigði, ég ætla ekkert að láta eins og svo sé ekki, en auðvitað er mjög margt gott sem við náðum í gegn. Það sem ég er mjög, mjög stolt af er að þær forsendur sem Samtök atvinnulífsins fóru af stað með inn í þessa kjarasamninga, þessi brjálæðislega breyting á allri vinnutímatilhögun á íslenskum vinnumarkaði, við höfnuðum henni bara alfarið,“ segir Sólveig Anna.

Hún segir að þær breytingar, lenging dagvinnutíma og fleiri „mjög róttækar og alvarlegar breytingar,“ hefðu verið algjörlega óásættanlegar. „Ég er líka mjög stolt af því að fá stjórnvöld til þess að viðurkenna að þau ættu að axla mikla ábyrgð á lífskjörum vinnuaflsins, þar náðist mikill árangur, sérstaklega ef við horfum til skattalækkana. Það er ýmislegt sem ég er mjög ánægð með.“

Sólveig Anna ræðir við Drífu Snædal forseta ASÍ við kynningu …
Sólveig Anna ræðir við Drífu Snædal forseta ASÍ við kynningu lífskjarasamninganna í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í kvöld. mbl.is/Hari
Sólveig Anna Jónsdóttir við undirritunina í Karphúsinu í kvöld.
Sólveig Anna Jónsdóttir við undirritunina í Karphúsinu í kvöld. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert