„Stór áfangi fyrir samfélagið allt“

„Þetta er stór áfangi fyrir samfélagið allt,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is eftir kynningu kjarasamninga í Ráðherrabústaðnum í kvöld. 

„Þetta er afrakstur samtals sem er búið að standa lengi. Það var okkar ásetningur strax í upphafi að fara í það verkefni að efla samtal stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins og ég lít svo á að það hafi gengið eftir og að við sjáum afraksturinn hér í kvöld,“ segir Katrín um aðkomu stjórnvalda og það að samningar hafi náðst.

Katrín segir að um langtímasamning sé að ræða, „þar sem er kynnt ný nálgun sem við höfum ekki séð áður í kjarasamningum,“ og vísar til hagvaxtarbreytunnar í samningunum, en þær fela í sér launahækkanir á samningstímanum, til viðbótar við fastar umsamdar hækkanir, í takti við það hversu mikill hagvöxtur verður á landinu.

Lenging fæðingarorlofsins „risamál“

Ein aðgerð stjórnvalda er að fæðingarorlof verður lengt í áföngum og verður 12 mánuðir árið 2021.

„Þetta er risamál, ekki bara fyrir ungt fólk, þetta er risamál fyrir samfélagið, að byggja hérna fjölskylduvænna samfélag. Við vitum það að þetta er sá tími í lífi ungs fólks þar sem getur verið erfiðast að ná endum saman, svo þetta er innlegg í það líka,“ segir forsætisráðherra.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræða …
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræða málin í kvöld. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert