„Sýnir að Bragginn var frávik“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir skýrslu innri endurskoðunar sýna að …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir skýrslu innri endurskoðunar sýna að Bragginn hafi verið frávik. mbl.is/​Hari

„Við erum í heilmiklu umbótaferli og þessi skýrsla nýtist við það, en það sem þessi skýrsla ber með sér er að hún undirstrikar að Bragginn var frávik,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í samtali við mbl.is um skýrslu innri endurskoðunar um verklegar framkvæmdir og innkaupamál borgarinnar sem kynnt var í borgarráði í dag.

Í skýrslunni kemur fram að Hlemmur mathöll hafi farið 79% fram úr áætlun. Einnig voru framkvæmdir við Sundhöll Reykjavíkur, viðbyggingu við Vesturbæjarskóla og framkvæmdir við Grensásveg til skoðunar.

Frávik þriggja verkframkvæmda sem skoðaðar voru reyndust innan óvissuviðmiða en það voru Sundhöllin, viðbygging við Vesturbæjarskóla og framkvæmdir við Grensásveg.

„Þetta er frumkvæðisathugun þar sem voru tekin fyrir fjögur verkefni sem falla líklega undir það að vera flókin og meginniðurstaðan er að þrjú af fjórum voru innan marka þegar bornar eru saman kostnaðaráætlanir og raunkostnaður,“ segir Dagur.

„Það er í raun bara Hlemmur mathöll sem fer út fyrir þau mörk. Það hefur verið þekkt um nokkurt skeið að þar reyndist þak og ýmislegt í verra ástandi en búist var við, þannig að það var umfangsmikið umbótaverk og viðhald sem bættist við,“ segir borgarstjóri. Því megi segja að eðlilegar skýringar séu á því að kostnaður hafi orðið meiri en gert var ráð fyrir í kostnaðaráætlun.

Dagur segir skýrsluna undirstrika „það að það er virkt og gott innra eftirlit hjá borginni, þetta er frumkvæðisathugun hjá innri endurskoðun og mun nýtast í framhaldinu“.

Spurður hvort ástæða sé til þess að gera úttekt á Gröndalshúsi og vitanum svarar Dagur að það liggi ekki alveg fyrir. Hann bendir á að Gröndalshús sé gamalt verkefni sem hafi verið unnið af Minjavernd. „Ekki er víst að það myndi hafa mikið upp á sig að taka það út.“

Að öðru leyti verði þó farið yfir það hvort þörf sé á frekari skýrslum í framhaldinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert