Verkalýðshreyfingin eigi hrós skilið

„Ég held að við getum öll verið sátt við þessa kjarasamninga, ekki bara við sem sátum við samningaborðið og vorum að klára samningagerðina, heldur ekki síður fólkið í landinu,“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við mbl.is í Ráðherrabústaðnum í kvöld.

„Þetta eru skynsamir kjarasamningar fyrir alla launþega, með fjórþætt markmið, að hækka laun, stytta vinnutíma, auka sveigjanleika og auðvitað að skapa skilyrði fyrir meiri stöðugleika hér og lækkun vaxta til frambúðar, sem er eitt stærsta hagsmunamálið fyrir heimilin í landinu og fyrirtækin til þess að standa undir fjárfestingum og hærri launum í framtíðinni,“ segir Halldór Benjamín.

Fyrirheit og von um lága verðbólgu

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar sagðist vonsvikin með þær taxtahækkanir sem um samdist að lokum, en þær voru um 72% af upphaflegri kröfugerð stéttarfélaganna. Inntur álits á þeim málum segir Halldór Benjamín:

„Í kjarasamningum erum við að skipta þeim verðmætum sem verða til í framtíðinni. Ég held að allir geti fagnað því að í þessum kjarasamningum erum við sannarlega ekki að fara fram úr því sem er verðmætasköpunin í hagkerfinu. Það gefur mér fyrirheit og von um það að verðbólga verði hér áfram lág þannig að heimili landsins geti búið við stöðugleika og lægri vexti. Það er enginn galdur fólginn í því að hækka laun um mjög háa prósentu á hverju ári, eða mjög háa krónutölu.

Til allrar hamingju, og verkalýðshreyfingin má eiga mikið hrós skilið fyrir það, kusu þau að fara í þessa vegferð með SA um samsetta lausn, sem skilar meiri árangri til lengri tíma en bara að hækka launaliðinn mjög mikið, eins og við höfum gert aftur og aftur, og gert sömu hagstjórnarmistök frá ári til árs, áratugi aftur í tímann,“ segir Halldór Benjamín, augljóslega sáttur með þá niðurstöðu sem kynnt var í kvöld.

„Ég hlakka til að sjá framvindu þessa kjarasamnings og sjá hvernig hann mun byggja undir lífskjör íslensku þjóðarinnar á næstu árum,“ segir Halldór Benjamín að lokum.

„Þetta eru skynsamir kjarasamningar fyrir alla launþega,“ segir Halldór Benjamín.
„Þetta eru skynsamir kjarasamningar fyrir alla launþega,“ segir Halldór Benjamín. mbl.is/​Hari
Halldór Benjamín við undirritun samninganna í Karphúsinu í kvöld.
Halldór Benjamín við undirritun samninganna í Karphúsinu í kvöld. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert