Aðstoða þá sem höllustum fæti standa

Eiginfjárlán að breskri fyrirmynd og 3,5% iðgjald sem má ráðstafa inn á fasteignir hjá ungu fólki eru megintillögurnar sem stjórnvöld í samráði við aðila vinnumarkaðarins eru sammála um vinna áfram. Þetta segir Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra en í dag voru kynntar fjórtán tillögur um lækkun þröskulds fyrir ungt fólk og tekjulága á húsnæðismarkaði.

Að sögn Ásmundar Einars heldur vinna við þetta áfram og byggir hún á samtali við aðila vinnumarkaðarins sem hefur byggst upp af hálfu félagsmálaráðuneytisins í tíu mánuði. „Ég fór að leggja áherslu á að hefja þetta samtal við aðila vinnumarkaðarins, ekki bara um húsnæðismál heldur líka félagsleg undirboð. Nú erum við komin að þeim tíma þar sem við erum að ramma þetta inn og nú hefst nýtt spil,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Ásmundur Einar Daðason á fundinum fyrr í dag.
Ásmundur Einar Daðason á fundinum fyrr í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurður um hversu mikilvægar tillögurnar fjórtán eru fyrir samfélagið segir hann að mikill meirihluti þeirra sem er á leigumarkaði, samkvæmt könnunum, vilji komast í eigið húsnæði. Tekjulægstu hóparnir hafi heldur ekki fengið tækifæri til að komast í eigin húsnæði. „Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að ná utan um þennan hóp og mér finnst þessar tillögur og síðan það sem hefur ratað inn í samstarfsyfirlýsingu stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, að náum við að fylgja því vel á eftir skiptir það máli fyrir þá hópa sem um ræðir og þar með skiptir það máli fyrir samfélagið allt. Þannig á samfélagið að virka. Við eigum að grípa inn í sem samfélag og aðstoða þá sem höllustum fæti standa, þannig á velferðarkerfið okkar að virka,“ segir Ásmundur Einar.

Frá fundinum í húsnæði Íbúðalánasjóðs.
Frá fundinum í húsnæði Íbúðalánasjóðs. mbl.is/Kristinn Magnússon

Róttækar tillögur til breytinga á samfélaginu

Skref hafa verið tekin til að draga úr vægi verðtryggingarinnar. Tillögur um það komu fram þegar nýir kjarasamningar voru kynntir fyrr í vikunni og lögð var áhersla á það að blaðamannafundinum í húsnæði Íbúðalánasjóðs í dag. Vill ráðherrann losna við verðtrygginguna? „Ég er mjög ánægður með margt í þessari yfirlýsingu, bæði sem félagsmálaráðherra og ráðherra í ríkisstjórn þar sem þetta var að nást og líka sem framsóknarmaður. Framsóknarflokkurinn hefur lagt gríðarlega áherslu á að stigin séu markviss skref til þess að afnema verðtryggingu úr íslensku samfélagi,“ greinir hann frá og segir Framsóknarflokkinn einnig lagt áherslu á það að styðja við ungt fólk sem vill koma inn á fasteignamarkaðinn og að skoðuð yrði leið varðandi tengingu við lífeyrissjóðakerfið.

„Síðan kemur verkalýðshreyfingin með breyttum áherslum þar og leggur áherslu á nákvæmlega sömu mál. Þess vegna er svo jákvætt að við skulum í sameiningu geta verið að landa þessu núna, aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórnin, róttækum tillögum til breytinga á íslensku samfélagi sem munu nýtast fólki á vinnumarkaði og ég hlakka mjög til að vinna áfram að því sem snýr að mér í því sem snýr að húsnæðismálum og félagslegum undirboðum.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Kortleggja félagslega stöðu vegna hrunsins

Aðspurður segir Ásmundur Einar einnig mikilvægt að vinna þétt með því fólki sem fór illa út úr hruninu, enda séu margir þeirra fastir á leigumarkaðnum. Lagði hann áherslu á að tillögurnar sem voru lagðar fram í dag næðu utan um þann hóp. Einnig var það niðurstaða samtals stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Hann segir félagsmálaráðuneytið vera að vinna að kortlagningu á félagslegri stöðu þeirra sem misstu eignir sínar og fóru verst út úr hruninu, tíu árum eftir þá ógæfu. „Ég held að það sé ekki bara mikilvægt til þess að ná utan um þennan hóp heldur líka til þess að þróa velferðarkerfið okkar til framtíðar ef við lendum í sambærilegum áföllum.“

Lagt fram á næsta löggjafarþingi

Ásmundur Einar vonast til þess að frumvörp sem tengjast kjarasamningum og hans ráðuneyti, hvort sem þau snúast um húsnæðismál, félagsleg undirboð eða vinnumarkaðslöggjöf verði lögð fram á næsta löggjafarþingi. „Hins vegar eins og gefur að skilja viljum við geta átt samtal og samvinnu við aðila vinnumarkaðarins um frekari útfærslur og það má ekki bitna á þeim þætti. Þegar menn hafa náð góðu samstarfi og góðri samvinnu sem hefur verið að byggjast upp í langan tíma, og trausti, þá megum við ekki rjúfa það heldur. Það eru allir meðvitaðir um að það þarf að gera þetta hratt en það verður samt að gera þetta vel og í samvinnu áfram,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert