Landsbankinn greiðir 9,9 milljarða í arð

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir að rekstur Landsbankans sé …
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir að rekstur Landsbankans sé traustur. mbl.is/Eggert

Á aðalfundi Landsbankans í gær var samþykkt tillaga bankaráðs um að bankinn myndi greiða 9,9 milljarða króna í arð til hluthafa á árinu 2019. Alls munu arðgreiðslur bankans á árunum 2013-2019 því nema um 142 milljörðum króna.

Þetta kemur fram á vef bankans. 

Þar segir að arðurinn nemi 0,42 krónum á hlut, eða samtals 9.922 milljónum króna. Arðurinn verður greiddur út í tveimur jafnháum greiðslum, annars vegar 10. apríl 2019 og hins vegar 2. október 2019. Arðgreiðslan nemur um 51,5% af hagnaði ársins 2018. Íslenska ríkið á um 98% í bankanum.

Arðgreiðslurnar eru í samræmi við arðgreiðslustefnu Landsbankans sem bankaráð samþykkti fyrr á þessu ári. Í arðgreiðslustefnunni kemur fram að bankinn stefni að því að reglulegar arðgreiðslur til hluthafa verði að jafnaði hærri en sem nemur 50% af hagnaði fyrra árs. Einnig er stefnt að sérstökum arðgreiðslum til þess að auka hagkvæmni í fjármagnsskipan bankans eftir því sem tilefni er til. Við ákvarðanir um arðgreiðslur þarf sem fyrr að tryggja að bankinn viðhaldi sterkri fjárhagsstöðu til framtíðar, að því er bankinn greinir frá.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, kynnti uppgjör bankans fyrir árið 2018. Á árinu nam hagnaður bankans 19,3 milljörðum króna, arðsemi eiginfjár var 8,2% og kostnaðarhlutfall var 45,5%. Útlán jukust um 138,9 milljarða króna, bæði til einstaklinga og fyrirtækja og vanskilahlutfall lækkaði í 0,8%. Eigið fé bankans nam 239,6 milljörðum króna í árslok 2019 og eiginfjárhlutfallið var 24,9%.

Þá voru eftirtalin kjörin aðalmenn í bankaráð Landsbankans:

  • Helga Björk Eiríksdóttir (formaður)
  • Berglind Svavarsdóttir
  • Einar Þór Bjarnason
  • Guðbrandur Sigurðsson
  • Hersir Sigurgeirsson
  • Sigríður Benediksdóttir
  • Þorvaldur Jacobsen

Eftirtalin voru kjörin varamenn í bankaráð Landsbankans:

  • Guðrún Ó. Blöndal
  • Sigurður Jón Björnsson
mbl.is