„Ísland hvergi nærri óhult“

Þetta er í annað sinn sem sem áhættumat fyrir peningaþvætti …
Þetta er í annað sinn sem sem áhættumat fyrir peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er unnið er hér á landi, en fyrra matið var unnið á vegum innanríkisráðuneytisins 2017. mbl.is/Golli

Ríkislögreglustjóri hefur gefið út áhættumat vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka. Áhættumatið felur í sér ítarlega og heildstæða greiningu á fyrirliggjandi hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka á þeim mörkuðum og starfsemi sem helst er talið að geti verið útsett fyrir slíkri áhættu á Íslandi.

Þetta er í annað sinn sem sem áhættumat af þessu tagi er unnið er hér á landi, en fyrra matið var unnið á vegum innanríkisráðuneytisins 2017.

Í matinu segir að Ísland sé líklega ekki fyrsta landið sem kemur upp í hugann hjá flestum þegar rætt er um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, en í heimi þar sem alþjóðavæðing fer sívaxandi er Ísland þó hvergi nærri óhult gagnvart þeim hættum sem felast í peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Ísland sé heldur ekki undanþegið þeirri skyldu að grípa til viðeigandi og nauðsynlegra aðgerða til að koma í veg fyrir að slíkt fái þrifist innan áhrifasvæðið þess.

Mikil ógn vegna frumbrota skattsvika

Helstu niðurstöður matsins eru þær að greind ógn taldist vera mikil þegar kom að frumbrotum skattsvika, peningasendingum, einkahlutafélögum, raunverulegum eigendum, flutningi reiðufjár til og frá landinu, starfsemi sem stundar reiðufjárviðskipti, lögmönnum, spilakössum og afléttingu fjármagnshafta. 

Þá taldist greind ógn vera veruleg þegar kom að innlánum, útgáfu rafeyris, greiðsluþjónustu, skráðum trú- og lífsskoðunarfélögum, sjóðum og stofnunum sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, öðrum almannaheillafélögum, reiðufé í umferð, endurskoðendum, fasteignasölum, vöru og þjónustu og kerfiskennitölum.

Leggja mat á hvort fullnægjandi varnir séu til staðar

Í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra segir að áhættumatið sé forsenda þess að unnt sé að leggja mat á hvort fullnægjandi varnir séu til staðar gagnvart peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, svo og til hvaða aðgerða þurfi að grípa reynist svo ekki vera.

Lagt er upp með að áhættumatið muni nýtast fjölmörgum sem hagsmuna eiga að gæta af málaflokknum, t.d. stjórnvöldum og eftirlitsaðilum, sem og þeim aðilum sem eru tilkynningarskyldir samkvæmt lögum nr. 140/2018, en gert er ráð fyrir því að þeir hafi áhættumat ríkislögreglustjóra til hliðsjónar er þeir framkvæma eigið áhættumat á rekstri sínum og viðskiptum.

Áhættumatið var unnið á faglegum og hlutlægum grundvelli og samkvæmt þeirri aðferðarfræði sem byggt er á í leiðbeiningum alþjóðlega aðgerðarhópsins Financial Action Task Force, sem kalla má leiðandi á þessu sviði. Ísland gekk til samstarfs við hópinn í september 1991.

Áhættumatið er unnið og birt á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 140/2018, en samkvæmt lögunum ber embætti ríkislögreglustjóra að vinna áhættumat sem inniheldur greiningu og mat á hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hér á landi og leiðir til að draga úr metinni áhættu. Samkvæmt lögunum skal áhættumatið uppfært á tveggja ára fresti og oftar gefist tilefni til.

Hér má nálgast áhættumatið í heild sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert