„Þetta er ég búinn að segja“

Lögmannafélag Íslands áminnti Jón Steinar vegna tölvupóstsendinga til þáverandi dómstjóra. …
Lögmannafélag Íslands áminnti Jón Steinar vegna tölvupóstsendinga til þáverandi dómstjóra. Sá úrskuður hefur nú verið felldur úr gildi, með dómi Landsréttar. mbl.is/Hari

„Dómurinn er byggður á þeirri aðalröksemd sem að ég tefldi fram í upphafi og það þarf ekkert að fara í neitt annað sem fjallað var um í málinu. Sú röksemd lýtur að því að stjórn Lögmannafélagsins hafði ekki heimild að lögum til þess að bera eitthvað erindi sem varðaði mig undir þessa úrskurðarnefnd,“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari, í samtali við mbl.is.

Eins og greint var frá fyrr í dag féllst Landsréttur á kröfu hans gagnvart Lögmannafélagi Íslands um að áminning á hendur honum yrði felld úr gildi, en áminningin var veitt vegna tölvupósta sem Jón Steinar sendi Ingimundi Einarssyni, þáverandi dómstjóra í Héraðsdómi Reykjavíkur. Lögmannafélagið var dæmt til að greiða Jóni Steinari málskostnað á báðum dómsstigum.

Í dómi Lands­rétt­ar seg­ir að ekki sé fyr­ir hendi „nægi­lega traust laga­heim­ild“ fyr­ir stjórn Lög­manna­fé­lags Íslands til að koma fram viður­lög­um gegn fé­lags­manni með því að leggja fram kvört­un fyr­ir úr­sk­urðar­nefnd fé­lags­ins.

„Þetta er ég búinn að segja við stjórnina alveg frá byrjun, án árangurs. En svo er þetta tekið til greina og það er auðvitað ánægjuefni fyrir mig að það skuli vera gert og að þessi furðulega áminning sem að mér var veitt skuli bara vera felld úr gildi,“ segir Jón Steinar.

Hrósar skýrum forsendum Landsréttar

Um þetta tiltekna mál hafði Jón Steinar litlu við að bæta, en hann vildi þó nýta tækifærið og hrósa þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru í Landsrétti.

„Það gleður mig að sjá að forsendur í dómum Landsréttar virðast vera styttri og markvissari en það sem að við höfum lengi séð hjá Hæstarétti Íslands og það er eins og það á að vera að mínu mati, áfrýjunardómstóll á að skrifa tiltölulega stutta og skýra dóma og ekki að vera að skrifa þar einhverja texta um hluti sem eru algjörlega óþarfir,“ segir Jón Steinar.

Hann bætir því við að sannleikurinn sé yfirleitt einfaldur og réttlætið sömuleiðis, en óréttlætið „flókið og margort.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert