Dóttir mín vill deyja!

„Dóttir mín er hætt að mæta í skólann og undanfarna fjóra mánuði hefur hún lokað sig af inni í herbergi. Hún vill ekki lifa. Bara deyja. Slík er vanlíðan hennar. Eins og gefur að skilja getum við ekki skilið hana eina eftir heima. Dóttir mín er mjög þunglynd og talar varla við okkur foreldrana.“

Þetta segir móðir fjórtán ára stúlku á einhverfurófi sem gengið hefur illa að ná athygli kerfisins. Hún vill ekki koma fram undir nafni af tillitssemi við dóttur sína. 

Mælt hefur verið með sérhæfðri sálfræðiþjónustu fyrir stúlkuna en bæði félagsþjónustan og heilsugæslan hafa synjað henni um þá þjónustu. Vísa á BUGL. Fullnaðargreining lá fyrir í lok febrúar sl. en stúlkan bíður enn eftir meðferð á BUGL. 

„Þessi bið hefur reynst okkur gríðarlega erfið. Dóttir okkar er þunglynd en enga hjálp virðist vera að fá. Hún er góð námsmanneskja og fyrir vikið er vont fyrir hana að missa svona mikið úr skóla. Ég hef reynt að leggja fyrir hana verkefni heima en hún sér ekki tilganginn með því að leysa þau. Það sé hvort eð er engin framtíð. Þunglyndi getur verið lífshættulegur sjúkdómur og álagið á okkur foreldrana hefur verið mikið. Við erum hrædd um dóttur okkar. Og erum örugglega ekki einu foreldrarnir í þeirri stöðu. Til hvers að finna þessar einhverfu stúlkur og greina þær ef ekki á að hjálpa þeim?“

Niðurstaða móðurinnar eftir samskiptin sem á undan eru gengin er sú að félagsþjónustan í sveitarfélaginu hennar vilji ekki hjálpa henni. „Mín tilfinning er sú að þetta sé happa-glappa eftir því í hvaða sveitarfélagi maður býr. Sum eru eflaust betri en önnur hvað þetta varðar.“
Þá kemur til kasta BUGL. „Við bíðum enn eftir þjónustu þar. Þar virðast veikindin vera metin eftir ákveðinni kríteríu og manni sýnist BUGL helst taka við börnum sem passa inn í tiltekinn kassa. Þrátt fyrir alvarleg veikindi er hún ekki í forgangi. Börn með truflandi og ógnandi hegðun ganga fyrir; ef vandinn er inn á við mætir barnið afgangi. Þessu hefði ég ekki trúað að óreyndu.“

Hana grunar að kynin sitji ekki heldur við sama borð. Strákar sem líður illa sýni oft og tíðum meiri reiði en stelpurnar og fái fyrir vikið fyrr athygli frá kerfinu. „Á meðan vandi stúlkna birtir sig á annan hátt, þá er vandi þeirra ekkert minni.“

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert